„Þetta bréf er áskorun til Ríkisútvarpsins um að ýta við okkur öllum, fórna einu lagi á dag fyrir snjalla áminningu sem við tökum eftir og tökum til okkar,“ segir Þorgrímur Þráinsson, rithöfundur og fyrrverandi landsliðsmaður í fótbolta, í aðsendri grein í Morgunblaðinu um helgina.
Þar skrifar Þorgrímur um læsi íslenskra ungmenna og varpar fram athyglisverðri tillögu sem hann beinir að RÚV.
„Árangur okkar og velgengni veltur á því hversu mikla trú við höfum á okkur sjálfum – sjálfstrausti. Vissulega spila hæfileikar, gen, líkamsburðir, aðstæður, liðsheild og ýmislegt fleira inn í en trúin á að við getum eitthvað þarf að vera fyrir hendi; sjálfstraustið. Það er byggt upp með margvíslegum hætti en árangur í skóla hefur mest áhrif á sjálfstraust barna. Þar er læsi í forgrunni; að geta lesið, skilið, skrifað og tjáð sig.“
Þorgrímur segir að allir sem vinna með börnum og ungmennum geri sér grein fyrir þessu. „En við hin lesum um þetta í fjölmiðlum, sjáum niðurstöðu PISA-kannana, hversu margir nemendur þurfa á sérkennslu að halda, glíma við „lesblindu“, brotna sjálfsmynd og svo mætti lengi telja,“ segir Þorgrímur sem telur að læsi sé eitt mikilvægasta lýðheilsumál þjóðarinnar. Við eigum öll að láta okkur það varða.
„Hér á landi er ríkisfjölmiðill, útvarp og sjónvarp. Á Rás 2 eru eflaust spiluð á milli 200 og 300 lög á hverjum sólarhring, töluvert færri á Rás 1. Ég væri til í að borga hærra útvarpsgjald og sleppa við eitt lag á sólarhring en fá þess í stað spark í rassinn – ábendingu um að ég gæti gert betur sem foreldri, sem uppalandi, sem ábyrgur einstaklingur.“
Þorgrímur segir að ríkisfjölmiðill eigi að sýna ábyrgð í verki þegar eitthvað bjátar á. Boðleiðin sé í raun mjög einföld og af því að við þurfum flest á áminningu að halda.
„Ég er sannfærður um að ég hefði haldið bókum oftar að mínum börnum, lesið meira með þeim eða fyrir þau – ef ég hefði fengið áminningu í lesnum eða leiknum auglýsingum og skjáauglýsingum. Við þurfum viðvarandi og fjölbreytt þjóðarátak til að snúa þróuninni við og Ríkisútvarpið verður að leggja meira af mörkum,“ segir Þorgrímur sem bendir á að vissulega hafi verið þættir í boði fyrir börn. En betur má ef duga skal.
„Þetta bréf er áskorun til Ríkisútvarpsins um að ýta við okkur öllum, fórna einu lagi á dag fyrir snjalla áminningu sem við tökum eftir og tökum til okkar. Börnin eiga það skilið og við þurfum annað slagið að skoða þá forgangsröðun sem er við lýði í samfélaginu og hjá okkur sjálfum. Þetta er svo einfalt, kostar ekki krónu, og mun spara okkur milljarða þegar fram líða stundir – af því það er orsök og afleiðing í þessu samfélagi. En hver veit nema aðrir fjölmiðlar grípi boltann á lofti og sýni frumkvæði.“