fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Fréttir

Dularfulli rauði bíllinn í Geirfinnsmálinu: Manninum var brugðið og hann rauk burt

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 21. maí 2019 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eins og flestir vita er mikilvægustu spurningunni í Geirfinnsmálinu ósvarað: Hvað varð um Geirfinn? Þeir sem voru dæmdir sekir um morð á honum á sínum tíma hafa hins vegar verið úrskurðaðir saklausir. Málið er því óleyst. Núna hefur dómsmálaráðherra falið Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra á Norðurlandi eystra, að rannsaka ábendingar um hvarf Geirfinns, sem og hvarf Guðmundar Einarssonar, sem hvarf um svipað leyti og sömu sakborningar voru dæmdir fyrir morð á. Ber Höllu jafnframt að taka afstöðu til þess hvort hefja beri lögreglurannsókn á grundvelli nýrra ábendinga í málunum.

Ein af mörgum vísbendingum sem gufað hafa upp og gleymst í þessu máli kom fram aðeins nokkrum dögum eftir hvarf Geirfinns. Eins og gamalt skjáskot úr Tímanum hér ber með sér var lýst eftir manni sem kom á smurstöð Þórshamars á Akureyri þriðjudagskvöldið 26. nóvember 1974, eða sléttri viku eftir hvarf Geirfinns. Maðurinn var á rauðum Fíat 600, samskonar og sjá má á meðfylgjandi myndum. Aftur var fjallað um málið í Tímanum þann 11. desember og þar er rætt við Hauk Guðmundsson, rannsóknarlögreglumann. Kemur þar fram að bíllinn og ökumaður hans hafi ekki fundist.

 

Málið er rifjað upp á Facebook-síðunni Íslensk mannshvörf. Þar kemur fram að maðurinn hafi líkst hinum fræga Leirfinni, sem gerð var höggmynd af, er átti að sýna mann þann sem mælti sér mót við Geirfinn í Hafnarbúðinni í Keflavík kvöldið sem Geirfinnur hvarf. Maðurinn þótti líkjast mjög leirstyttunni. Þannig segja Íslensk mannshvörf frá þessu:

„Þann 26.11.1974 kom maður sem samsvaraði sér í klæðaburði og útliti og við hinn svokallað „Leirfinn“ á verkstæði Þórshamars á Akureyri.

Þetta var um kl 18:00 og vildi hann fá bifreið þá sem hann ók smurða í hvelli. Bifreiðin var af gerðinni Fiat 600, rauður að lit á G númeri. G bókstafurinn stóð fyrir Gullbringu og Kjósarsýslu samkvæmt gamla númerakerfinu. Maðurinn fékk þau svör að hann þyrfti að bíða í 10-15 minútur eftir þjónustu. Það vildi hann ekki.

Starfsmaður gistiheimilis á Akureyri segir svo frá að sami maður hafi einnig komið þangað á sama bíl og falast eftir gistingu en allt var uppbókað. Starfsmaður gistiheimilisinns spyr manninn þá hvaða ferðalag sé á honum og svarar hann við að hann sé á leiðinni á Raufarhöfn en bregður við eins og hann hafi misst út úr sér þessa ferðaáætlun og rýkur burt í kjölfarið.

Mikið var auglýst eftir þessum manni og bifreiðinni en án árangurs. Athuganir lögreglu á slíkum bifreiðum hér á landi skilaði heldur ekki neinu.

Athygli vekur þó að hvergi er að finna neitt í gögnum málsins sem segir hverjir þessir aðilar voru sem tilkynntu þetta.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þessi matvæli eiga alls ekki að geymast í ísskáp

Þessi matvæli eiga alls ekki að geymast í ísskáp
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ný ríkisstjórn kynnt við vetrarsólstöður

Ný ríkisstjórn kynnt við vetrarsólstöður
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum