Efling vandar hótelstjóranum Árna Val Sólonssyni ekki kveðjurnar vegna hópuppsagna á hótelunum Capital-Inn, City Park Hotel og City Center Hotel, og segir athæfi hans „fullkomlega siðlaust.“
Rétt eftir að nýir kjarasamningar voru samþykktir, í lok apríl, sendi Árni Valur starfsmönnum sínum erindi þar sem þess var krafist að þeir segðu upp starfskjörum sínum. Þeim bauðst svo að vera endurráðin á nýjum launakjörum. Þetta var gert „með það að markmiði að lækka launakostnað“.
Ef starfsmenn færu ekki að þessum fyrirmælum jafngilti það, að mati Árna, uppsögn á starfinu. Nokkrum starfsmönnum var í kjölfarið sagt upp á grundvelli þessa.
„Þetta er að okkar mati fullkomlega siðlaust athæfi,“ segir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, í tilkynningu til fjölmiðla vegna málsins. „Við erum nýbúin að undirrita kjarasamninga við Samtök atvinnulífsins, sem fyrirtæki Árna eru aðilar að. Þeir samningar byggja á því að hækka laun og bæta kjör fólks. Blekið er ekki þornað á samningnum þegar hann reynir svo að svíkja starfsfólk sitt um þær kjarabætur. Þar að auki er ákvæðum laga um hópuppsagnir ekki fylgt.“
Samkvæmt tilkynningu Eflingar um málið er þetta ekki í fyrsta sinn sem Árni Valur gengur nærri réttindum starfsmanna sinna. Hafi hann hafið framkvæmdir við viðbyggingu á einu hóteli, án tilskilinna leyfa sem lauk með því að Vinnueftirlitið lokaði vinnustaðnum þar sem veruleg hætta væri til staðar fyrir líf og heilbrigði starfsmanna. Einnig reyndi Árni að koma í veg fyrir að starfsmenn hans tæku þátt í verkfallsaðgerðum.
„Þegar kom að verkfalli þann 22. mars urðu verkfallsverðir Eflingar vitni að afleiðingum þessarar framkomu hótelstjórans. „Hann tók þar á móti okkur og starfsfólk var þar vinnandi,“ segir Ragnar Ólason, sviðsstjóri kjaramála. „Hann sagði að það kæmi okkur ekki við, þau væru ekki í Eflingu.“ Umrætt starfsfólk vann störf sem heyra undir kjarasamning Eflingar við SA og var því um verkfallsbrot að ræða.“
Úrslitakostir í uppsagnarbréfum Árna voru ekki það eina ámælisverða við bréfin. Þar var einnig talað um nýtt yfirgreiðslufyrirkomulag sem tæki mið af stéttarfélagsaðild og starfshlutföll skráð sem 80-100 prósent sem stenst ekki kjarasamninga.
Efling hefur gefið fyrirsvarsmönnum hótelanna eina viku til að bregðast við athugasemdum þeirra og draga ólögmætar uppsagnir sínar til baka.