fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Fréttir

Meira um elskhugann – Hver er þessi maður? Hvað sagði hann við lögregluna? Hvers vegna flýr hann?

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 3. maí 2019 21:00

Geirfinnur Einarsson hvarf 19. nóvember 1974.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég vil í skýrslu þessari byrja að greina frá kynnum mínum og Guðnýjar Sigurðardóttur. Ég man ekki nákvæmlega í hvaða mánuði við fyrst hittumst, en það var í einhverju húsi í Garðahreppi, en þangað kom ég í boði frænku minnar Heiðu, en með Heiðu var þá Guðný.“ – Svo mælir Vilhjálmur Svanberg Helgason í lögregluskýrslu frá árinu 1976. Meðal vina gekk hann ávallt undir nafninu Svanberg. Hann var elskhugi eiginkonu Geirfinns Einarssonar sem hvarf sporlaust þann 19. nóvember árið 1974.

Eins og við höfum greint frá áður og kemur fram í heimildarmyndinni Skandall sem Sjónvarp  Símans sýnir í fjórum hlutum þá var Svanberg fremur lítið rannsakaður af lögreglu þó að tengsl hans við Geirfinn hafi verið mun augljósari en hinna eiginlegu sakborninga í Geirfinnsmálinu sem nú hafa verið sýknaðir. Fram hefur komið að Svanberg flutti frá Íslandi árið 1976 til Þýskalands á meðan rannsókn Geirfinnsmálsins stóð sem hæst. Hann kom sjaldan aftur til Íslands og ekki er vitað til þess að hann hafi komið hingað í áratugi.

Geirfinnur Einarsson

Svanberg virðist búa í Þýskalandi nú um stundir en hann býr ekki lengur í Berlín. Skömmu eftir að Boris Quatram og aðrir aðstandendur heimildarmyndarinnar Skandall höfðu upp á aðsetri hans tæmdi hann íbúð sína og lét sig hverfa. Síðan höfðu Boris og teymio hans upp á honum aftur á ónefndum stað í Þýskalandi. Þar féllst hann á að ræða við Boris utan myndavélar. Lítið kom fram í þeim samræðum annað en hann kannaðist við að hafa verið elskhugi Guðnýjar Sigurðsdóttur, eiginkonu Geirfinns Einarssonar. Hann sagðist lítið muna eftir þessum atburðum en viðurkenndi að hann hefði haldið áfram að hitta Guðnýju eftir hvarf Geirfinns. Þau hafi hins vegar verið ólík og ekki átt saman.

„Ég veit ekki hvað hann er að flýja“

Í gær birti DV viðtal við gamlan vin Svanbergs, Gísla Helgason. Sjá hér. Þar kom meðal annars fram að Gísli hefur ekki heyrt frá Svanberg í áratugi en hann var í nokkrum samskiptum við hann, einkum bréfleiðis, fyrstu árin eftir að Svanberg flutti frá landinu. Þá kom fram að Svanberg giftist konu frá Máritíus og bjó með henni í Þýskalandi.

DV heyrði aftur í Gísla eftir viðtalið og bætti hann þá við að hjónaband Svanbergs og þessarar konu hafi aðeins varað í um tvö ár og sambúðin hafi verið erfið. Greina má einnig að líf Svanbergs hefur verið erfitt í gegnum árin. Haft er eftir ónefndum kunningja Svanbergs, sem veitti upplýsingar í gær, að Svanberg hafi haft samband við móður sína og leitað ásjár fjölskyldunnar hér á landi. Hann hafi hins vegar fengið þau skilaboð að ekki væri hjálpar að vænta þar sem hann hafi aldrei ræktað neitt samband við ættingja sína á Íslandi.

„Mér er sagt að hann sé á stöðugum flótta í Þýskalandi en ég veit ekki hvað hann er að flýja, kannski sjálfan sig,“ segir Gísli.

En er mögulegt að Svanberg hafi átt þátt í hvarfi Geirfinns? Gísli segir: „Ég á erfitt með að trúa því. Mér fannst Svanberg aldrei hafa verið það mikill bógur að hann gæti staðið í slíku. Ég neita að trúa því fyrr en ég tek á því að hann hafi gert eitthvað slíkt.“

Var í Keflavík rétt fyrir hvarf Geirfinns

Öll málsgögn í Geirfinns-málinu er að finna á þessu vefsvæði: mal214.com.  Meðal þeirra er skýrsla sem Svanberg gaf lögreglunni í Reykjavík snemma í nóvember árið 1976, tæpum tveimur árum eftir hvarf Geirfinns. Þar kemur fram að Svanberg hitti Guðnýju oft á heimili vinkonu Guðnýjar, Sjafnar. Þangað kom síðan Guðný og þau áttu innilegar samverustundir. Fyrir kom einnig að Guðný færi með Svanberg heim til sín og Geirfinns en þá var Geirfinnur ekki heima. Að sögn Svanbergs hitti hann aldrei Geirfinn og Geirfinnur var aldrei heima þegar Svanberg var á heimilinu. Segir hann að Guðný hafi læst hann inni í stofu yfir nóttina, líklega til að börnin (Guðný og Geirfinnur áttu tvö börn) vissu ekki að hann væri á staddur á heimilinu.

Sem fyrr segir var Svanberg staddur að eigin sögn í Keflavík dagana fyrir hvarf Geirfinns en ekki kvöldið sem Geirfinnur hvarf. Lögregla virðist ekki hafa gengið eftir því að fá þann framburð sannreyndan. Um þetta segir Svanberg orðrétt:

„Ég get fullyrst að ég var ekki í Keflavík seinnihluta þriðjudagsins 19. nóv. 1974, en ég kom til Reykjavíkur um morguninn og fór þá beint í skólann.“

Í lögregluskýrslu, sem tekin var í Keflavík, tveimur árum áður, nokkrum dögum eftir hvarf Geirfinns, kemur fram að Svanberg segist hafa eytt þriðjudagskvöldinu 19. nóvember á heimili sínu með foreldrum sínum. Lögregla virðist ekki hafa gengið eftir því að fá þetta staðfest.

Í skýrslunni  sem tekin var í Reykjavík tveimur árum síðar segist Svanberg aldrei hafa séð Geirfinn nema á ljósmyndum. Orðrétt segir hann í skýrslunni:

„Ég hefi enga minnstu hugmynd um, hvernig Geirfinnur hefur horfið og hef einungis fylgst með því, sem fjölmiðlar hafa sagt um málið.“

 

Sjá einnig: 

Nýtt í Geirfinnsmálinu

Varpa sterkum grun á elskhuga eiginkonu Geirfinns

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þessi matvæli eiga alls ekki að geymast í ísskáp

Þessi matvæli eiga alls ekki að geymast í ísskáp
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ný ríkisstjórn kynnt við vetrarsólstöður

Ný ríkisstjórn kynnt við vetrarsólstöður
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum