fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Fréttir

Þorsteinn er búinn að fá nóg – Við þurfum að bregðast við þessum glæpum

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 2. maí 2019 15:33

Ljósmynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þetta er oft talið vera eitthvað léttvægt en það er misreiknað. Þetta eru dýrir hlutir og þeir sem eru á hjólum eru stórar fjölskyldur. Ég var að fara í gegnum það í huganum, en ég á fjögur börn, ég hugsa að hátt í tíu reiðhjólum hafi verið stolið af okkur í gegnum tíðina,“ segir Þorsteinn Guðmundsson, ástsæll grínisti með meiru, í viðtali við DV, en reiðhjóli eiginkonu hans var stolið í morgun. Segir hann að í flestum tilvikum hafi hjólin verið læst, þó ekki öllum.

Þorsteinn bý í miðbænum og telur reiðhjólaþjófnaði miklu alvarlegra vandamál en margir geri sér grein fyrir því og þjófnaðirnir virðist stundum hafa á sér yfirbragð skipulagðrar glæpastarfsemi:

„Menn eru að ganga um með klippur og ég gekk nú bara fram á einn sem hljóp niður meðfram Sundhöll Reykjavíkur þegar ég var að fara í sund einn morguninn og þegar ég kem að innganginum stendur þar kona ein miður sín yfir því að maðurinn var þarna að reyna að klippa á hjólalás. Þetta er frekar óhugnanlegt,“ segir Þorsteinn og honum hrýs hugur við hvað reiðhjólaþjófar virðast vera farnir að ganga skipulega til verks.

Þorsteinn telur að samfélagið og jafnvel lögreglan vanmeti alvarleika þessara brota og þau skaðlegu áhrif sem þau geta haft á þá sem fyrir þeim verða, sérstaklega þegar börn eigi í hlut.

„Mér finnst kominn tími til að gera rassíu og stoppa þetta. Eins og með aðra glæpi þá er einhver sem viðheldur þessu með sölukerfi og með því að taka við þýfinu og koma hjólunum áfram í verð. Þar þarf að grípa inn í. Fólk er að gera þetta til að ná sér í pening. Í heildina eru það rosaleg verðmæti sem fólk er að tapa út af þessum glæpum.“

Þorsteinn bendir á að þó að sumir fái tjónið bætt úr tryggingum sé það alls ekki alltaf þannig. Auk þess sé þjóðfélagslegur skaðinn sá sami.

„Það er óþolandi að þurfa að tilkynna börnunum sínum um þetta eða að þau gangi fram á það að hjólinu þeirra hafi verið stolið, hjóli sem þeim þótti vænt um. Ég segi bara, ég held að það sé kominn tími til að við finnum út úr þessu. Ég er svo sem enginn sérfræðingur en ég skora á þá sem vita meira að stíga fram og reyna að hjálpa okkur með þetta. Kannski gæti lögreglan haldið fund og skýrt þetta betur fyrir okkur.“

Ljóst er að þessi mál brenna á fleirum en Þorsteini. Stuttu eftir að hann uppgötvaði að hjóli eiginkonu hans hafði verið stolið í morgun skrifaði hann stutta hugleiðingu á Facebook:

„Fólki kann að finnast það ekki stórglæpur að stela reiðhjóli en það er örugglega mörg þúsund reiðhjólum stolið á hverju ári, mörgum dýrum, mörgum sem hafa líka tilfinningalegt gildi fyrir viðkomandi, oft börn og unglinga. Má ekki reyna að stoppa þetta? Einhvers staðar er þessu komið í verð. Einhver er að kaupa þetta og viðhalda þessum mjög svo pirrandi glæpastarfsemi.“

Færslan fékk mikil viðbrögð því rétt á meðan Þorsteinn brá sér frá tölvunni og náði sér í kaffi höfðu fjölmargir sagt álit sitt á þessu og ljóst að þessir hvimleiðu glæpir brenna á mörgum. Einn ritar:

„Þetta er bæði skipulagt sérstaklega og fólk í fíkn sem stelur hjólum og kemur í verð. Hef sjálfur tapað hjóli. Það er bæði farið í bakgarða og inn hjólageymslur og mikilvægt að nota veglegar keðjur til að læsa reiðhjólum og við eitthvað sem er fast, ekki að þau standi ein og sér.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“
Fréttir
Í gær

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“