Vilhjálmur Svanberg Helgason heitir maðurinn sem átti vingott við eiginkonu Geirfinns Einarssonar um það leyti sem Geirfinnur hvarf. Í heimildarmyndinni Skandall sem sýndur er í Sjónvarpi Símans eru leiddar líkur að því að þessi maður kunni að hafa átt þátt í hvarfi Geirfinns. Athygli vekur að hann virðist hafa flúið undan áhuga blaðamannsins Boris Qutram, sem er höfundur myndarinnar, tæmt íbúð sína í Berlín í skyndingu og enginn veit hvar hann er niðurkominn. Löngu áður, um það leyti sem rannsókn Geirfinnsmálsins var í hámæli, lét Vilhjálmur Svanberg sig hverfa frá Íslandi.
DV náði tali af gömlum vini mannsins, Gísla Helgasyni. Gísli kallar gamla vin sinn ávallt Svanberg og skulum við halda okkur við það nafn hér eftir. Um Svanberg er það annars meðal annars vitað að hann var í þýskunámi við HÍ um það leyti sem Geirfinnur hvarf. Hann var liðtækur hljóðfæraleikari og spilaði á píanó en var þó enginn atvinnumaður í faginu. Svanberg var talinn mikill gleðimaður og nokkuð drykkfelldur. Hann var ekki þekktur fyrir ofbeldishneigð.
Gísli Helgason var landsþekktur maður á áttunda áratugnum. Hann fæddist mjög sjónskertur og tvíburabróðir hans Arnþór Helgason fæddist blindur. Í kjölfar Vestmannaeyjagossins sem hófst í janúar 1973 urðu bræðurnir önnum kafnir við þáttagerð hjá Ríkisútvarpinu í tengslum við Vestmannaeyjar en þáttur þeirra bar heitið Eyjapistill. Síðar kom Gísli á stofn Blindrabókasafni Íslands ásamt Helgu Ólafsdóttur. Gísli var þekktur tónlistarmaður á sinni tíð, rómaður blokkflautuleikari og lagasmiður. Hann minnist vinar síns, Svanbergs, með hlýhug.
„Ég hef ekki séð Svanberg í 30-40 ár. Þegar hann fór héðan fyrst af landi brott trúði hann mér fyrir því að hann hefði átt í bréfasamskiptum við stúlku frá Máritíus, hann hefði fengið sendar frá henni tvær myndir en hún liti ekki eins út á báðum myndunum. Síðan var hann á leiðinni til Þýskalands en skrapp í leiðinni til Máritíus og þau voru gift eftir fjóra daga. Þau fluttu síðan til Þýskalands. Hann kom hingað um tveimur árum síðar og kynnti mig fyrir konunni. Síðar frétti ég að þau hafi skilið en að öðru leyti hef ég ekki frétt meira frá honum. Fyrir mörgum árum frétti ég síðan að Svanberg hefði horfið,“ segir Gísli í viðtali við DV.
Hann segir að vinur sinn hafi verið gleðimaður og uppátækjasamur þegar hann var undir áhrifum áfengis en ber honum almennt afar vel söguna:
„Hann var ekki ofbeldisfullur en hann gat farið yfir strikið þegar hann drakk og tekið upp á ýmsu. Það er óhætt að segja að hann var mikill kvennamaður og stundum stríddi hann mér með það að mér gengi illa að stíga í vænginn við kvenfólk. Almennt var hann glaðlyndur og góður félagi. Við vorum afskaplega miklir vinir.“
„Ég hef oft hugsað til hans Svanbergs. Síðast þegar ég var í sambandi við hann skrifaði hann mér frá Þýskalandi daglega því hann var nú þannig gerður blessaður að hann hafði alltaf samband þegar hann þurfti á mér að halda. Hann var í vandræðum varðandi búsetuskráningu vegna þess að hann var ekki með hreint sakavottorð á Íslandi, hafði keyrt fullur. Við vorum að hjálpa honum varðandi pappírsmál og þess háttar.“
Þegar DV hafði samband við Gísla áttaði hann sig ekki í fyrstu á tengslum Svanbergs við hinn horfna Geirfinn Einarsson. Hann segir það hafa spilað inn í að hann var önnum kafinn á þessum árum auk þess sem Geirfinns-málið komst raunverulega ekki í hámæli fyrr en Svanberg var horfinn af landinu. Gísla er ókunnugt um heimildarmyndina Skandall í Sjónvarpi Símans þar sem fjallað er um þennan gamla vin hans. Hins vegar rifjuðu spurningar blaðamanns upp fyrir honum gamlar minningar um þetta. Gísli segir:
„Þegar þú nefnir þetta þá fer að rótast upp í minninu hjá mér. Það er eins og kvikni á peru. Að hann hafi sagt mér frá því að hann hafi verið að eiga við einhverja konu suður með sjó, hún væri gift og maðurinn hennar hefði horfið. Hann var í einhverjum vandræðum með þessa konu vegna þess að hún sótti stíft á hann. Hann sagði hins vegar aldrei neitt við mig sem benti þess að hann sjálfur væri viðriðinn hvarf mannsins.“
Ljóst er af myndinni Skandall að Svanberg vildi ekki láta hafa upp á sér. Ráða þurfti einkaspæjara til að hafa upp á aðsetri hann og eins og fyrr segir lét hann sig hverfa skömmu eftir að kvikmyndagerðarmennirnir höfðu haft upp á honum. Hins vegar er sjálfsagt að ítreka það sem æskuvinur hans Svanberg segir að hann sagði Gísla aldrei að hann væri viðriðinn hvarf Geirfinns en hann sagði honum að hann hefði átt vingott við eiginkonu hans og vildi losna frá henni.