Sá sem er í haldi, grunaður um morðið á hálfbróður sínum, Gísla Þór Þórarinssyni, hafði áður haft í hótunum við hann. Þetta kemur fram í frétt NRK. Tíu dögum fyrir voðaverkið í gær fékk Gísli nálgunarbann á manninn. Hótanirnar munu hafa byrjað löngu fyrir þann tíma.
Anja M. Indbjør, yfirmaður ákærusviðs lögreglunnar í Finnmörku, staðfestir þetta í samtali við NRK. Segir hún að þetta hafi verið alvarlega hótanir en hún geti ekki farið nákvæmlega út í efni þeirra.
Gísli var fertugur að aldri. Atburðurinn átti sér stað í 1.100 manna smábæ í Finnmörku í Noregi, Mehamn. Sá sem situr í varðhaldi, grunaður um að hafa valdið dauða Gísla, er 35 ára gamall hálfbróðir hans. Annar maður, 32 ára, er einnig í varðhaldi, grunaður um aðild að verknaðinum, en hann neitar sök. Hinn grunaði birti játningu í málinu á Facebook-síðu sinni í gærmorgun.