Fall WOW hefur óneitanlega haft áhrif á ferðamannaiðnaðinn á Íslandi. Því kæmi það líklega fáum á óvart að fyrirtæki í ferðaþjónustu væru tilbúin að leggja ýmislegt á sig til að gera endurreist WOW að veruleika. Kristófer Óliversson, framkvæmdastjóri Center Hotels og formaður fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu segist, í samtali við RÚV, vita um mikinn áhuga meðal fyrirtækja í ferðaþjónustu að taka þátt í endurreisn WOW, jafnvel með beinum hætti.
„Það er mjög mikill áhugi hjá mönnum að WOW fari aftur af stað. Ef einhver möguleiki er á því,“ segir Kristófer í samtali við RÚV og bætir við að hann hafi sjálfur hug á því að fjárfesta í endurreisninni. Hins vegar sé fjárfestingasvigrúm hótelanna ekki mikið.
Í kvöldfréttum RÚV á laugardag var greint frá því að Skúli Mogensen, stofnandi WOW, hafi fundað með eigendum KEA-hótela í síðustu viku um stofnun nýs flugfélags.
Kristófer segir að mörg áföll hafa dunið á ferðaþjónustunni upp á síðkastið, svo sem verkföll og að sjálfsögðu fall WOW.
„Svo er náttúrulega þetta áfall með gjaldþrotið og svo er annað áfall sem er líka stórt, sem er ef Icelandair getur ekki notað þessar Max þotur í sumar þá er það að hafa mikil áhrif.“
Hann segir ófært að treysta því að iðnaðurinn rétti sjálfur úr kútnum.
„Mér finnst ekki alveg sjálfgefið að þetta bara reddist, ég held að það þyrfti meira til. Til dæmis að WOW færi af stað aftur“
„Ef að það verða einhverjir möguleikar uppi þar sem að margir aðilar geta lagst á árina þá er ég viss um að mjög margir muni skoða það“
RÚV hefur það einnig eftir Davíð Torfa Ólafssyni, framkvæmdastjóra Íslandshótela, að það sé hagsmunamál fyrir hótelrekendur að annað flugfélag verði sett á laggirnar í stað WOW, en vildi þó ekkert gefa upp um hvort Íslandshótel ætlaði að skoða að taka þátt í endurreisn WOW.
Ljóst er að margir hafa hagsmuna að gæta af mögulegri endurreisn WOW þá sérstaklega ferðamannaiðnaður landsins sem hefur orðið fyrir þungum skellum frá áramótum, en þó einnig fleiri. Á vefsíðunni hluthafi.com eru svonefndir hollvinir almennrar samkeppni að hvetja Íslendinga til samstöðu með því að standa sameiginlega að endurreisn WOW og reyna nú að safna hlutafé svo hægt sé að stofna félag sem gæti tekið þátt í endurreisninni.
„Sameinumst um stofnfé, þá þurfum við ekki hvert og eitt að leggja mikið til þar sem margt smátt gerir eitt stórt, þ.e. flugfélag.“