Haukur Guðmundsson, sem stýrði rannsókninni á hvarfi Geirfinns Einarssonar í upphafi, segir að elskhugi eiginkonu Geirfinns, hafi verið einu sinni tekinn í viðtal en aldrei rannsakaður sérstaklega. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu.
Þessi maður heitir Vilhjálmur. Hann virðist hafa verið í Keflavík um það leyti sem Geirfinnur hvarf. Maðurinn býr núna í Þýskalandi og þýski rannsóknarblaðamaðurinn Boris Quatram hafði upp á honum við gerð heimildarmyndar um Geirfinnsmálið sem sýnd verður í Sjónvarpi Símans á þriðjudagskvöld.
Í viðtali við Morgunblaðið segist Haukur ekki telja að lausn málsins liggi þarna. Boris tók viðtal við manninn sem birt er í kvikmynd hans og kom hann upplýsingum um hann til lögreglu. Þar sem búið er að sýkna upphaflega sakborninga í Geirfinns-málinu er talið að forsendur hafi skapast til að taka málið upp að nýju.