Lofið þessa vikuna fær hann „stjörnu“ Sævar Helgi Bragason sem leitt hefur áhorfendur þáttarins Hvað höfum við gert? í allan sannleikann um loftslagsbreytingar. Þættirnir sem framleiddir eru af Saga Film fyrir RÚV hafa útskýrt á mannamáli hvaða áhrif loftslagsbreytingarnar hafa haft á lífríki og samfélög og afleiðingar þeirra. Sævar segir ungt fólk ekki nægilega meðvitað um loftslagsmál og að ef ekki takist að stöðva þá neysluhyggju sem á sér stað þá sé framtíðin ekki björt. Í þáttunum er einnig rætt hvaða lausnir eru til staðar og hvað hver og einn geti gert. DV er fylgjandi umhverfishyggju og við erum ánægð með framtak Sævars.
Í vikunni barst DV ábending um myndband sem gekk eins og eldur í sinu um samfélagsmiðla. Í myndbandinu, sem tekið er við Borgarholtsskóla í Grafarvogi, má sjá karlmann gefa annarri manneskju kjaftshögg og er talið að sú sem varð fyrir högginu sé kona. Við höggið féll manneskjan í jörðina og hefur myndbandið vakið mikinn óhug lesenda. DV er á móti ofbeldi í allri sinni mynd og því fær karlmaðurinn á myndbandinu, ásamt öllum öðrum sem telja ofbeldi í lagi, lastið.