Þegar Geirfinnur Einarsson hvarf árið 1974 virðist lögreglan aldrei hafa rannsakað elskhuga eiginkonu hans en hún hélt þá við ungan háskólastúdent. Þýskur rannsóknarblaðamaður og kvikmyndagerðarmaður segir í viðtali við Morgunblaðið að í málum af þessu tagi séu elskhugar, ef í spilinu eru, ávallt rannsakaðir. Sérkennilegt sé að það hafi ekki verið gert.
Við gerð myndarinnar tókst Boris Quatram, en svo heitir blaðamaðurinn, að hafa uppi á elskhuganum, en sá maður býr í Þýskalandi. Ræddi hann við kvikmyndagerðarmennina en kemur ekki fram undir nafni eða í mynd í heimildarkvikmyndinni. Boris segist hafa komið upplýsingunum á framfæri við lögreglu og segir hann það hennar mál að meta þær upplýsingar, það sé ekki hans að velta sér upp úr mögulegri sök manna.