fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Starfsmenn Fiskistofu yfirheyrðir: Kurr vegna niðurfelldrar sektar – Fiskur tekinn úr frystiskipum

Ritstjórn DV
Laugardaginn 6. apríl 2019 08:56

Fiskiskip Á siglingu út Eyjafjörð.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

DV heldur nú áfram umfjöllun um málefni Fiskistofu. Í síðasta helgarblaði var greint frá því að innan stofnunarinnar ríkti slæmur starfsandi og lítið traust sem lýsti sér meðal annars í því að í bifreiðar starfsmanna var settur eftirlitsbúnaður og að vinnustaðasálfræðingar hefðu verið kallaðir til. Vandræðin hófust eftir misheppnaðan flutning höfuðstöðvanna til Akureyrar. Þá greindi DV einnig frá því að stofnunin greiði himinháar greiðslur í dagpeninga á ári hverju. Á síðasta ári voru það um 40 milljónir króna.

Hér verður fjallað um sum þeirra mála sem heimildarmenn DV nefndu til sögunnar þegar rætt var við þá um starfsemi stofnunarinnar.

Huglægt mat á hæfni starfsfólks

Flutningur Fiskistofu til Akureyrar var tilkynntur sumarið 2014 og gekk í gegn í byrjun árs 2016. Tilkynnti Eyþór Björnsson fiskistofustjóri þá að engum starfsmönnum yrði sagt upp eða settir afarkostir. En starfsfólki bauðst að flytja norður og fá til þess greiðslur til að aðstoða við flutninginn.

Þetta reyndist ekki rétt því að staða millistjórnenda sem starfað höfðu um árabil hjá stofnuninni breyttist mikið við flutninginn. Fyrir eina stöðuna var til dæmis ákveðið að búa til tvær nýjar, með aðstöðu á Akureyri og Hornafirði. Var framkvæmt mat á þáverandi millistjórnendum í ýmsum flokkum, meðal annars ensku og tölvukunnáttu, en þeir ekki látnir taka neitt próf. Ekki voru þeir einu sinni látnir vita heldur aðrir látnir gera huglægt mat á hæfni þeirra. Út frá þessu mati var þeim sagt að þeir stæðust ekki nýjar kröfur.

Öðrum þeirra var boðið að taka við nýju en óskilgreindu starfi ásamt því að taka á sig meira en 100 þúsunda króna launalækkun. Þurfti hann að fara í hart með lögfræðing sér við hlið til að ná fram starfslokasamningi til eins árs og á fullum launum.

Var þessi breyting gríðarlega dýr fyrir stofnunina, sérstaklega í ljósi þess að hinir nýju tveir starfsmenn ferðast mikið og fá dagpeninga og ferðakostnað greiddan.

Niðurfelling sektar

Mikils titrings hefur einnig gætt innan Fiskistofu vegna máls er varðar bátinn Daðey GK sem var í eigu Marvers ehf. í Grindavík. Í ágúst 2017 var lagt á sérstakt gjald, kallað álagning, sem er í raun jafngildi sektar, vegna veiða bátsins þegar hann var sviptur veiðileyfi í apríl sama ár. Báturinn hafði verið sviptur veiðileyfi  frá og með 3. apríl til og með 10. apríl þar sem afladagbók hans hafði ekki verið skilað. Báturinn var á þessum tíma gerður út á línuveiðar frá Grindavík. Þrátt fyrir sviptingu veiðileyfis fór áhöfn bátsins til veiða og landaði um 2,6 tonnum af óslægðum afla í Grindavík þann 6. apríl. Það er hefðbundið að bátar og skip séu svipt veiðileyfi ef ekki eru staðin skil á afladagbók og gildir sviptingin þar til afladagbók er skilað.

Í bréfi Fiskistofu til Marvers ehf. var málið rakið og útgerðinni gefinn kostur á að koma athugasemdum og andmælum á framfæri við Fiskistofu áður en ákvörðun yrði tekin um hvort báturinn yrði sviptur veiðileyfi eða álagningu beitt.

Í lok júlí var bréf sent til útgerðarinnar þar sem tilkynnt var að útgerðinni yrði veitt áminning vegna málsins þar sem um fyrsta brot væri að ræða og það væri minniháttar. Fram kemur að útgerðin hafi síðan svarað bréfi Fiskistofu í maí og komið því á framfæri að vandræði með tölvu í Daðey GK hefði komið við sögu. Fiskistofa taldi það svar ekki geta haft áhrif á ákvörðun í málinu.

Auk þess að veita útgerðinni áminningu tilkynnti Fiskistofa að skoðað yrði hvort álagningu vegna ólögmæts sjávarafla yrði beitt í málinu.

Með bréfi til Marvers ehf. í lok ágúst var útgerðinni tilkynnt um álagningu sérstaks gjalds vegna ólögmæts sjávarafla og nam það 749.780 krónum samkvæmt gögnum sem DV hefur undir höndum. Þetta er hefðbundin afgreiðsla sem þýðir að aflaverðmætið er í raun tekið af útgerðinni og hún situr uppi með kostnaðinn við að halda bátnum til veiða, þar með talin laun, olía og kaup á aflaheimildum. Útgerðin tapar því á því að hafa haldið bátnum til veiða þegar hann var sviptur veiðileyfi.

DV sendi fyrirspurn til fiskistofustjóra sem þvertók fyrir að um geðþóttaákvörðun hefði verið að ræða. Í svari hans, sem er að mestu byggt á svari lögmanns hjá stofnuninni, kemur fram að eftir álagningu gjalds vegna ólögmæts sjávarafla hafi útgerðin haft samband við lögfræðinginn og óskað eftir að málið yrði tekið til meðferðar á nýjan leik. Það hafi verið gert og hafi sú skoðun leitt í ljós að andmælaréttur málsaðila hefði ekki verið virtur. Honum hafi verið gefinn kostur á að koma andmælum að og hafi skilað greinargerð ásamt fylgigögnum í formi yfirlýsingar þriðja aðila og afriti af kostnaðarreikningi. Síðan segir að í ákvörðun Fiskistofu hafi þess aðeins verið getið að yfirlýsing hefði borist frá þriðja aðila en ekki hafi verið getið um greinargerð málsaðila. Þetta sé brot á andmælarétti málsaðila þar sem ekki hafi verið lagt mat á andmælin þegar ákvörðunin var tekin. Á þessum grunni hafi ákvörðunin verið ógilt og álagningin því felld úr gildi.

En það sem hefur vakið athygli starfsfólks, fyrrverandi og núverandi, er að þegar ákvörðun var tekin á haustmánuðum 2017 um að fella málið niður voru engin gögn færð inn í skjalaskrá Fiskistofu um það. Segja heimildarmenn að fiskistofustjóri hafi sjálfur hlutast til um að reikningur, sem búið var að stofna í heimabanka á hendur útgerðinni, yrði felldur niður og málinu lokið. Þetta hafi hann einfaldlega gert með símtali. Þá segja heimildarmenn að þau rök sem eru sett fram í svari fiskistofustjóra við fyrirspurn DV séu um margt skrítin þar sem aðrar útgerðir hafi ekki hlotið sömu meðferð vegna vanskila á afladagbók. Fiskistofa hefur að sögn gengið hart fram í þeim málum á undanförnum árum og svipt mörg skip og báta veiðileyfi vegna vanskila. Það megi því spyrja sig til hvers slíkar sviptingar séu, ef þær hafa síðan ekkert gildi þegar upp er staðið. Tilkynnt hafi verið um sviptinguna með hefðbundnum hætti og útgerð Daðeyjar GK hefði því verið fullkunnugt um hana. Samkvæmt því sem heimildarmenn DV segja þá var ekki farið að neinum reglum sem gilda um vandaða stjórnsýslu þegar kom að ákvörðun um niðurfellingu málsins, ekkert var að sögn skjalfest um þetta og engin bréf send út, ákvörðunin var einfaldlega tilkynnt með símtali. Ekki verði annað séð en að um geðþóttaákvörðun fiskistofustjóra sé að ræða og nú sér verið að reyna að klóra yfir hana.

Yfirheyrsla

Skömmu fyrir jól kom upp mál í Grindavík þar sem eftirlitsmaður Fiskistofu var grunaður um að hafa tekið fisk, án þess að greiða fyrir hann, hjá Stakkavík þar sem eftirlitsmenn voru við störf. Nýráðinn eftirlitsmaður varð vitni að þessu og tilkynnti það yfirstjórn Fiskistofu í samræmi við vinnureglur stofnunarinnar. Viðkomandi eftirlitsmaður var sendur í leyfi á meðan málið var skoðað. Eftiráskýring um bankamillifærslu og/eða nóta fyrir fiskinn var tekin gild og veiðieftirlitsmaðurinn kom aftur til starfa um sex vikum síðar. Hann fékk áminningu vegna málsins.

Heimildir DV herma að mikill kurr sé í starfsfólki vegna málsmeðferðarinnar. Ekki í sjálfu sér yfir að starfsmaðurinn hafi fengið áminningu heldur að eftirlitsmennirnir voru kallaði í einhvers konar yfirheyrslu, sem fyrrverandi yfirlögfræðingur stofnunarinnar stýrði. Yfirheyrslan fór fram í fundarherbergi þar sem fjarfundabúnaður er til staðar. Var eftirlitsmönnunum gert að setjast í ákveðinn stól, gegnt fjarfundabúnaðinum, áður en yfirheyrslan hófst. Þeim var ekki kynnt að aðrir fylgdust með í gegnum fjarfundabúnaðinn eða að yfirheyrslan væri tekin upp. Starfsfólk telur að yfirheyrslan hafi verið tekin upp eða aðrir fylgst með í gegnum fjarfundabúnaðinn, svo mikil var áherslan á að eftirlitsmennirnir sætu í þessum ákveðna stól. Ef slíkt hefur verið gert er það með öllu ólögmætt þar sem eftirlitsmönnunum var ekki tilkynnt um þetta.

Eyþór hafnar því alfarið að starfsmenn hafi verið hleraðir. Við DV segir hann:

„Starfsmenn Fiskistofu hafa aldrei verið hleraðir svo vitað sé og aldrei af hálfu stofnunarinnar sjálfrar.“

Fundur var haldinn með veiðieftirlitsmönnum þar sem nýráðna eftirlitsmanninum var hampað og aðrir beðnir um að láta hann ekki gjalda fyrir heiðarleika sinn eftir því sem heimildir DV herma.

Fiskistofa
Starfsstöðin í Hafnarfirði.

Fiskur tekinn úr frystiskipum

Heimildarmenn DV segja að mál sem þessi séu ekkert einsdæmi hjá veiðieftirlitsmönnum. Var þar nefnt sérstaklega til sögunnar að þegar frystiskip komi í land hafi það lengi tíðkast hjá hópi eftirlitsmanna á suðvesturhorninu að taka töluvert magn af fiski ófrjálsri hendi. Magnið er sagt vera svo mikið að það hafi ekki aðeins verið ætlað til einkaneyslu. Það myndi ekki skipta máli þótt magnið væri svo lítið að það væri ætlað til einkaneyslu þar sem eftirlitsmönnum er algjörlega óheimilt að taka við fiski frá sjómönnum og útgerðum.

Þegar frystiskip kemur í land fara veiðieftirlitsmenn og gera úttekt á aflanum og nýtingu við vinnslu hans. Meðan á veiðiferðinni stendur þarf áhöfnin að taka nýtingarsýni/vinnslusýni reglulega með ákveðnum hætti. Þessi sýni eru síðan uppreiknuð og af niðurstöðum þessa útreiknings er ákvarðað hversu mikið var veitt af hverri tegund. Það er því hagur útgerðarinnar að sýnin séu sem allra best úr garði gerð, því þá eru minni aflaheimildir dregnar af skipinu.

Veiðieftirlitsmenn kanna hvort nýtingarsýni hafi verið tekin, en þau eru yfirleitt á bilinu 40 til 60 í hverri veiðiferð.

Við úttektina eru teknar 3–4 fisktegundir, nýtingarsýni, að teknu tilliti til aflamagns í hverri tegund. Veiðieftirlitsmennirnir ákveða hvaða dagar eru valdir til samanburðar en þá eru nýtingarsýni/vinnslusýni áhafnarinnar borin saman við nýtingarsýni sem veiðieftirlitsmenn velja. Til að þessi samanburður sé marktækur þurfa helst að vera 20 flök, 10 fiskar, í nýtingarsýninu. Því þarf að þíða 10 fiska upp. Yfirleitt ætti að duga að þíða eina öskju af frystum fiski upp en í henni eru níu kíló. Ekki er þó óalgengt að tvær öskjur séu þíddar upp. Yfirleitt eru þrjár öskjur í hverjum kassa sem landað er úr skipunum en það getur þó verið breytilegt eftir því fyrir hvaða markað afurðin er ætluð.

Heimildarmenn DV segja að nær undantekningarlaust hafi ákveðnir veiðieftirlitsmenn tekið 2–4 kassa hver af fiski í úttekt en það eru þá 54 til 108 kíló sem hver tekur. Þetta er yfirleitt þorskur eða ýsa, roðlaus og beinlaus. Það er því ljóst að það magn sem þeir taka er langtum meira en þarf til að gera fyrrgreindan samanburð.

Þetta er gert meðan á löndun stendur og eru starfsmenn útgerðanna látnir vita að nú eigi að gera úttekt. Þeir spyrja þó að sögn heimildarmanna aldrei út í hversu mikið sé tekið af hverri tegund og ekki er vitað til að útgerðirnar skrái það hjá sér.

Veiðieftirlitsmennirnir eru svo sagðir þíða lítinn hluta, af þeim fiski sem þeir taka, til samanburðarúttektar, en taki svo restina með sér heim. Heimildarmenn DV segja að einnig séu dæmi um að veiðieftirlitsmenn hafi tekið fisk og humar með heim úr veiðiferðum sem þeir hafa farið í með skipum og bátum til eftirlits. Einnig var talað um dæmi þess að veiðieftirlitsmenn hafi tekið svo mikið magn af fiski með heim að öruggt sé að þeir hafi verið að fénýta hann, selja. Fiskurinn, sem er þíddur upp, er síðan gefinn góðgerðasamtökum. Einn veiðieftirlitsmaður er sagður hafa viðurkennt fyrir starfsfólki á Fiskistofu að hafa tekið þíddan fisk með sér heim til neyslu. Það er algjörlega óheimilt.

Bakreikningsmál

Fyrir nokkrum árum kom fram í fréttum að fiskistofustjóri hefði ákveðið að hætta öllum svokölluðum bakreikningsmálum sem stofnunin var að vinna að. Í slíkum málum eru ýmis gögn um afla, vinnslu og sölu afurða notuð til að reikna út hversu mikill fiskur kemur inn í vinnslustöð og hvort hún hafi þá selt meira af afurðum en hún ætti að gera miðað við keypt magn af óunnum fiski. Þetta er góð leið til að fylgjast með hvort verið sé að svindla á kvótakerfinu. Mál sem þessi eru tímafrek í rannsókn og þarf að leggja mikla vinnu í þau.

Ákvörðun fiskistofustjóra kom flatt upp á starfsmenn Fiskistofu enda voru mörg stór mál í rannsókn á þessum tíma. Í fjölmiðlum sagði fiskistofustjóri að ástæðan fyrir þessari ákvörðun væri að þau væru of flókin og skiluðu of litlum árangri. Það sem ekki kom fram þá og hefur ekki komið fram í fjölmiðlum er að einn starfsmaður Fiskistofu hafði fyrir mistök sent tölvupóst, með nákvæmum og viðkvæmum upplýsingum um þau mál sem voru til rannsóknar og átti að fara að rannsaka, til fjölda manns. Þar á meðal voru fyrirtæki sem voru til rannsóknar. Með þessu voru rannsóknirnar eyðilagðar á svipstundu. Ekki er ljóst af hverju þessu hefur verið haldið leyndu og af hverju þetta gerði út af við rannsóknir sem þessar sem voru taldar mikilvægt vopn í eftirliti stofnunarinnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Virknin í gosinu stöðug – Hraunið á bílastæði Bláa Lónsins enn á hreyfingu

Virknin í gosinu stöðug – Hraunið á bílastæði Bláa Lónsins enn á hreyfingu
Fréttir
Í gær

Fyrstu myndir af gosinu úr þyrlu Landhelgisgæslunnar

Fyrstu myndir af gosinu úr þyrlu Landhelgisgæslunnar
Fréttir
Í gær

Rýmingu lokið í Bláa lóninu

Rýmingu lokið í Bláa lóninu