Eftir fall WOW air í síðustu viku var viðbúið að strandaglópar þyrftu að sýna ákveðna útsjónarsemi til að komast heim á réttum tíma. Þó að enn séu nokkrir dagar liðnir frá falli WOW sitja enn einhverjir ferðamenn fastir hér á landi. Í þeim hópi eru tveir bandarískir nemendur frá Huntington í Vestur-Virginíu.
Hunter Barcley og Caroline Kimbro eru nemendur við Marshall-háskólann í Huntington og áttu þau bókað flug heim um helgina. Í frétt WSAZ kemur fram að það hafi reynst skólafélögunum þrautin þyngri að finna ákjósanlegt flug heim til Bandaríkjanna, en það hafðist að lokum og halda þau Hunter og Caroline af landi brott á morgun.
Þau fengu flug til New York og munu foreldrar þeirra sækja þá frá Huntington. Þetta er ekki beint venjulegur bíltúr því vegalengdin er rúmir 900 kílómetrar.
Barclay segir í samtali við WSAZ að þau hafi fyrst heyrt af gjaldþroti WOW air frá íslenskum leiðsögumanni sínum hér á landi. „Ég hélt í fyrstu að þetta væri grin. Það var ekki eins og við hefðum fengið einhverja tilkynningu um þetta. Manni var örlítið brugðið,“ segir Barcley.
Áður en Barcley, sem stundar nám í alþjóðasamskiptum, kom til Íslands tók hann þátt í ræðukeppni í Berlín. Þar fór hann með sigur úr bítum og því má segja að ferðalagið hafi verið nokkuð minnisstætt.
Caroline segir aðspurð að það sé ekkert endilega slæmt að hugsa til þess að skólafélagar hennar séu í skólanum á meðan hún er strandaglópur á Íslandi – í nokkurra þúsunda kílómetra fjarlægð. Ísland sé alls ekki versti staðurinn til að vera fastur á í nokkra daga. „Það er reyndar bara fínt, ég lýg því ekki. Þó að það verði mikið að gera þegar ég kem aftur.“