Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að aldrei hafi fleiri misst vinnuna á einum degi hér á landi.
Blaðið segir að margra mánaða tilraunum stjórnenda WOW air til að bjarga fyrirtækinu hafi lokið í fyrrinótt þegar ALC, sem á sjö af þeim þotum sem WOW air var með í notkun, hafi látið kyrrsetja vélarnar í Bandaríkjunum og Kanada vegna skulda WOW air. Í framhaldi af því skilaði WOW air flugrekstrarleyfi sínu inn til Samgöngustofu og farið var fram á gjaldþrotaskipti félagsins hjá Héraðsdómi Reykjavíkur.
Mörg þúsund manns urðu strandaglópar hér á landi og erlendis við gjaldþrotið. Viðbragðsáætlun stjórnvalda var virkjuð til að reyna að draga úr því tjóni sem gjaldþrotið getur haft á orðspor Íslands sem áfangastaðar ferðamanna.