Frá því að WOW air var stofnað hefur félagið greitt rúmar þúsund krónur með hverjum farþega. Þá má rekja uppruna vanda WOW til þess að rekstur félagsins hafi ekki verið sjálfbær frekar en að skuldastaða félagsins hafi verið of þung.
Þetta segir Elvar Ingi Möller, sérfræðingur hjá greiningardeild Arion banka, í Viðskiptablaðinu í dag. Í blaðinu er að finna ítarlega fréttaskýringu um vanda WOW air, en eins og kunnugt er var starfsemi félagsins stöðvuð í nótt.
Í blaðinu kemur fram að frá stofnun og til septemberloka 2018 hafi WOW greitt rúmar þúsund krónur með hverjum farþega.
„Uppruni vanda Wow air liggur ekki í þungri skuldastöðu heldur að reksturinn hefur ekki verið sjálfbær heilt yfir á þeim árum sem félagið hefur verið starfandi og það hefur verið að selja flug of ódýrt,“ hefur blaðið eftir Elvari. Þá hafi verið á flugferðum farið lækkandi á undanförnum árum, eða um 40 prósent frá áramótum 2014 til ársloka 2018. Þetta hafi verið hægt að réttlæta að hluta árin 2016 og 2017 þegar olíuverð var lágt. Eftir að það tók að hækka hafi flugfargjöld áfram haldist ódýr.
Ýmsir hafa velt fyrir sér afleiðingum falls WOW á efnahag fyrirtækja og heimila hér á landi. Sérfræðingar telja fullvíst að verðbólga hækki og gengi krónunnar lækki en hversu mikið það verður mun tíminn leiða í ljós. Í frétt Viðskiptablaðsins kemur fram að greiningardeild Arion spái samdrætti í fyrsta sinn frá bankahruni óháð framtíð WOW. Þegar Viðskiptablaðið fór í prentun var ekki enn útséð með hvort WOW myndi lifa.
Í hagspá Arion banka, sem Viðskiptablaðið vitnar til, kemur fram að landsframleiðsla dragist saman um 1,9 prósent á þessu ári – að því gefnu að WOW hætti starfsemi. Ef WOW hefði lifað hefði landsframleiðslan engu að síður dregist saman en um 0,8 prósent. Í fréttinni kemur fram að talað sé um að hagkerfi sé í kreppu þegar landsframleiðsla dregst saman tvo ársfjórðunga í röð.
Þá er vitnað í spá Hagstofunnar frá því í febrúar sem spáði 1,7 prósenta hagvexti á þessu ári. Spá Hagstofunnar er því bjartsýnni en spá greiningardeildar Arion banka. Rætist spá Hagstofunnar um 1,7 prósenta hagvöxt verður það engu að síður minnsti hagvöxtur hér á landi frá 2012.
Erna Björg Sverrisdóttir, sérfræðingur hjá greiningardeild bankans, segir í Viðskiptablaðinu að margir óvissuþættir séu í hagkerfinu um þessar mundir. Þannig hafi enginn loðnukvóti verið gefinn út og þá ríki enn óvissa um kjarasamninga. Ofan á þetta bætist vandi flugfélaganna. Erna segir að þrátt fyrir alla þessa óvissu séu grunnstoðir hagkerfisins sterkar hér á landi. Nefndi hún skuldastöðu heimila, fyrirtækja og ríkisins í því samhengi og sterka erlenda stöðu þjóðarbúsins. Þá er þess getið að gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins byggi á breiðari grunni en áður.