fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Þess vegna var starfsemi WOW air stöðvuð

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 28. mars 2019 10:32

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það kom flatt upp á marga af heyra af því í morgun að starfsemi WOW air hefði verið stöðvuð. Í gær leit það þannig út að fjárhagsleg endurskipulagning WOW væri á lokametrunum.

Það sem felldi WOW air var 300 milljóna króna skuld við Air Lease Corporation (ALC), stærsta leigusala WOW air. sem greiðast átti fyrir miðnætti í gær, samkvæmt heimildum Markaðarins. Því voru sjö vélar WOW kyrrsettar, með augljósum afleiðingum.

Skuld WOW air við ALC, sem er í eigu bandaríska milljarðamæringsins Steven Udvar-Hazy, eins ríkasta manns heims, nam í lok febrúar samtals um 1,6 milljörðum, Samkvæmt heimildum Markaðarins höfðu forsvarsmenn ALC staðið fast á því að vélarnar yrðu kyrrsettar ef WOW air stæði ekki í skilum með greiðsluna á tilsettum tíma.

Greint hafði verið frá því að meirihluti skuldabréfaeigenda og annarra kröfuhafa hafi samþykkt að breyta skuldum sínum í hlutafé og þá var fullyrt að tilraun til að fá inn um fimm milljarða króna í nýtt hlutafé væri á lokametrunum. Heimildir herma að ákveðin bjartsýni hafi ríkt hjá starfsfólki eftir tíðindi gærdagsins.

Sjá einnig: WOW air hættir starfsemi

Í frétt mbl.is í morgun var hins vegar greint frá því að staðan hafi versnað mjög skyndilega eftir að flugvélaleigusalar WOW létu kyrrsetja vélar félagsins í Bandaríkjunum og Kanada seint í gærkvöldi. Leigusalar WOW eru ALC, Tungnaa Aviation Leasing Limited og Sog Aviations Leasing Limited. Þetta var gert vegna vanefnda á leigusamningum, að því er heimildir Morgunblaðsins herma.

Eftir þessa kyrrsetningu sendi WOW frá sér tilkynningu þar sem fram kom að allt flug hefði verið stöðvað þar til samningar um nýtt hlutafé væru í höfn.

Það var svo í morgun að forsvarsmenn WOW héldu á fund Samgöngustofu, að því er segir í frétt Morgunblaðsins, og skiluðu inn flugrekstrarleyfi félagsins.

Þá segir í frétt RÚV að leigufélögin sem leigðu WOW vélar hafi óttast að þær yrðu fastar á Íslandi ef félagið yrði gjaldþrota. Þess vegna hafi verið tekin ákvörðun um að kyrrsetja þær.

Þórólfur Árnason samgöngustjóri segir við RÚV að forsvarsmenn WOW hafi tekið ábyrga ákvörðun þegar þeir skiluðu inn flugrekstrarleyfinu í morgun. Þeim hafi ekki tekist að fá nýja fjárfesta að borðinu. Þá hafi Samgöngustofa verið með viðbragðshóp tilbúinn vegna málsins sem nú hefur verið virkjaður.

Í bréfi sem Skúli Mogensen sendi starfsfólki WOW í morgun sagðist hann miður sín vegna málsins, en félagið hafi ekki átt annarra kosta völ en að leggja niður starfsemi úr því sem komið var. „Þetta er líklega það erfiðasta sem ég hef þurft að gera en raunveruleikinn er sá að tíminn er á þrotum og okkur hefur mistekist að tryggja starfseminni fjármagn.“

Í tilkynningu sem Isavia sendi frá sér á ellefta tímanum í morgun kemur fram að Isavia hafi beitt stöðvunarheimild í kjölfar fregna af kyrrsetningu véla WOW í Bandaríkjunum og Kanada. Ein vél WOW var stödd á Keflavíkurflugvelli til tryggingar á ógreiddum notendagjöldum.

„Isavia harmar það að WOW air hafi hætt rekstri enda hefur félagið flutt fjölmarga farþega um Keflavíkurflugvöll síðastliðin sjö ár og verið mikilvægur hlekkur í velgengni Keflavíkurflugvallar og uppbyggingu ferðaþjónustu á Íslandi. Það er ljóst að brotthvarf WOW air mun hafa áhrif á rekstur Keflavíkurflugvallar. Isavia mun á næstunni fara yfir hver þau áhrif kunni að verða. Starfsfólk Isavia á Keflavíkurflugvelli mun aðstoða farþega WOW air eftir bestu getu í dag og næstu daga.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Erna segir skilið við Miðflokkinn en hafði sóst eftir oddvitasæti – „Miðflokkurinn gekk úr mér“

Erna segir skilið við Miðflokkinn en hafði sóst eftir oddvitasæti – „Miðflokkurinn gekk úr mér“
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Össur tætir Pírata í sig: „Málefnalega skipta þau ekki lengur máli“

Össur tætir Pírata í sig: „Málefnalega skipta þau ekki lengur máli“
Fréttir
Í gær

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“
Fréttir
Í gær

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“