Fjölmiðlakonan Edda Sif Pálsdóttir olli dálitlu fjaðrafoki um helgina er hún birti mynd af vinnustað sínum, útvarpshúsinu við Efstaleiti, og áletrunina „Helgarfrí eru bara fyrir homma og kellingar“. Þótti sumum þessi fyndni vera óviðeigandi og meiðandi í garð stórra minnihlutahópa, þ.e. kvenna og samkynhneigðra. Öðrum þótti þetta vera saklaust gaman.
Skúli Ólafsson, sóknarprestur í Neskirkju, leggur orð í belg um málið í grein á Visir.is í dag og bendir á að konur og samkynhneigðir hafi þurft að auðsýna mikið hugrekki í réttindabaráttu sinni í gegnum árin. Skúli skrifar:
„Nú á dögunum upphófst nokkur umræða vegna orða fréttakonunnar Eddu Sifjar Pálsdóttur þess efnis að helgarfrí væru „bara fyrir homma og kellingar“. Ekki er að undra að marga hafi rekið í rogastans við þessa yfirlýsingu því hún er ekki alveg í takt við tíðarandann. Einhvern tímann þótti fyndið að taka svona til orða en það á, held ég, ekki við lengur. Menningin hefur breyst og þær breytingar hafa ekki komið fyrirhafnarlaust.
Ég held einmitt að hommar og kellingar séu dæmi um fólk sem hefur barist hefur af hörku fyrir réttindum sínum og um leið bættu samfélagi. Til skamms tíma þurfti margur að fara í felur með kynhneigð sína og sjálfsvíg meðal samkynheigðra voru tíðari en tárum taki. Hugrakkt fólk úr þeirra röðum þurfti að takast á við forpokun og illsku sem gegnsýrði samfélag okkar. Það hefur uppskorið ríkulega fyrir þrautseigju sína og elju.
Ef ég skil orðið „kelling“ rétt, þá er það sá helmingur þjóðarinnar sem hefur jafnt og þétt risið upp og bætt kjör sín og stöðu á undanförnum áratugum. Konur eru nú í meirihluta í háskólasamfélaginu og breytingar í jafnræðisátt eru örar þegar litið er til stjórnsýslu og viðskiptalífs. Þá er #metoo vakningin ótalin. Hún er lýsandi dæmi um baráttu kvenna og harðfylgi.“
Skúli bendir síðan á að hommar og konur séu ólíklegri en aðrir til að taka sér helgarfrí, leiða megi rök að því að þetta fólk unni sér aldrei hvíldar:
„Það mætti þvert á móti halda að hommar og kellingar hafi ekki unað sér hvíldar, allt frá þeim árum þegar það þótti sniðugt að tala með niðrandi hætti um þessa hópa. Blessunarlega eru þeir tímar liðnir, þökk sé þrotlausri vinnu þeirra.“