Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að ríkisstjórnin sé með plan ef rekstur WOW Air stöðvast, bæði hvað varðar farþega sem gætu orðið strandaglópar erlendis, hvernig eigi að bregðst við skaða sem gæti orðið á orðspori Íslands og fleiri hlutum sem gætu komið upp. Hins vegar sé ekki réttlætanlegt að setja skattfé inn í áhætturekstur sem þennan.
Fjármálaráðherra lét þessi orð falla í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi fyrir nokkrum mínútum, þar sem hann svaraði fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins.
Bjarni sagði að stjórnvöld hafi haft starfshóp starfandi í marga mánuði sem hafi sett upp mismunandi sviðsmyndir og hvernig ætti að bregðast við þeim. Ríkisstjórnin væri því viðbúin, ef allt færi á versta veg.