Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Eins og fram kom í fjölmiðlum hélt Þórarinn ræðu á ráðstefnu Neytendasamtakanna og Alþýðusambands Íslands í síðustu viku þar sem hann gagnrýni verðlagningu sumra veitingastaða harkalega. Hann sagði hana oft yfirgenglega og að þetta hafi orðið til þess að Íslendingar séu hættir að fara út að borða.
Morgunblaðið hefur eftir Stefáni að erindi Þórarins hafi verið mjög forvitnilegt og margt til í því sem hann sagði en hann sagðist þó telja að orðum Þórarins hafi að mestu verið beint að skyndibitastöðum.
„Í raun er hans kenning búin að sanna sig þannig. Veltutölurnar eru þær sömu en það eru fleiri kúnnar.”
Sagði Stefán og bætti við að veltutölurnar væru þær sömu en viðskiptavinirnir fleiri.
”Það er betri nýting á starfsfólkinu og betri nýting á húsnæðinu. Það eina sem ég á eftir að reikna út er hvernig þetta kemur út hráefnislega. En á móti kemur að fólk leyfir sér meira og fær sér kannski forrétt eða hvítvínsglas. Ef ég tek heildartöluna getur vel verið að þetta standi í stað eða verði hugsanlega meira.”
Haft er eftir honum að hann telji að fleiri veitingastaðir í Reykjavík geti farið þessa leið enda sé nauðsynlegt að lækka verð í borginni, hvort sem það er á veitingastöðum eða öðrum stöðum.
„Fólk á að reyna að heimfæra þetta eins og best er fyrir hvert fyrirtæki fyrir sig. En það þarf að lækka vöruverð í landinu. Það er meginatriði. Við getum ekki verðlagt okkur út af markaðnum. Það er númer eitt, tvö og þrjú. Við megum ekki missa túristana og landinn á að geta haft það það gott að hann geti farið út að borða 1-2 í mánuði.”
Sagði hann og útilokaði ekki að halda verðinu áfram eins og það er í dag. Nú eigi eftir að reikna út útkomuna í mánuðinum og sjá hver staðan er.