Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að í mömmuhópunum sé sagt að um mjög veikt barn sé að ræða í Reykjavík og sé það í heimahúsi. Það sé með sjaldgæfan sjúkdóm og þurfi á brjóstamjólk að halda því það geti ekki drukkið þurrmjólk. Af þessum sökum þurfi að fá hreina brjóstamjólk. Þær mæður sem hafa reynt að kanna málið betur hafi fengið að vita að milliliður muni sækja brjóstamjólkina og koma henni áleiðis. Ekki hefur reynst unnt að komast í samband við fjölskyldu þessa veika barns.
Brjóstamjólk hefur verið vinsæl með kraftlyftingafólks og vaxtaræktarfólks að undanförnu en það telur að hægt sé að hraða uppbyggingu vöðva með neyslu hennar. Fram kemur í Fréttablaðinu að brjóstamjólk sé hins vegar ekki svo mikill undradrykkur fyrir uppbyggingu vöðva að fólk þurfi að verða sér úti um hana á fölskum forsendum.
Haft er eftir Jóni Magnúsi Kristjánssyni, yfirmanni bráðalækninga á Landspítalanum, að þangað hafi borist fyrirspurnir vegna sögunnar um veika barnið.
„Það eru tvær mögulegar skýringar á þessu. Annars vegar að það sé í raun barn hér einhvers staðar á höfuðborgarsvæðinu með sjúkdóm sem spítalinn viti ekki um og þá er mikilvægt að koma því undir læknishendur. Hin skýringin er sú að einhverjir séu að reyna að komast yfir brjóstamjólk í einhverjum öðrum tilgangi.“
Er haft eftir Jóni.