„Ég var alltaf að hugsa um eitthvað annað í skóla en það sem ég átti að vera að læra, ég var kvíðinn og félagsfælinn og vildi helst vera heima,“ svona hefst frásögn Björgvins Eðvaldssonar, verkamanns og öryrkja.
Björgvin er meðlimur í Eflingu og deilir sögu sinni á Facebook síðu átaksins „Fólkið í Eflingu“. Þar má einnig finna fjölmargar aðrar sögur fólksins í stéttafélaginu, fólks sem vinnur margvísleg störf í íslensku samfélagi en oft á tíðum fyrir lág laun.
Björgvin fann fyrir miklum kvíða í barnaskóla, en hann var í skóla við gamla Stýrimannaskólann. „Ég var bara hræddur við fólk og kennarinn hafði engan skilning á þessu og þá var bara kennaraprikið.“ Ekki bætti úr skák að hann glímdi við talmein.
„Ég átti erfitt með að segja R og Þ og móðir mín var sífellt að senda mig í talkennslu, enég held að þetta hafi verið lesblindan. Um leið og ég vann bug á henni þá hvarf þetta allt.“
Björgvin fluttist 12 ára gamall frá Vesturbæ Reykjavíkur upp í Breiðholt, en þar átti hann erfitt félagslega, kynntist engum og var lagður í einelti.
„Ég var tekin út úr 20 manna bekk og sendur í sérkennslu í þriggja manna hóp og ég tel það hafi orsakað eineltið. Ég flúði frá eineltinu og fór í Hagaskóla. Bjössi skólastjóri sendi mig í tossabekkinn og sagði við mig: „þú verður þarna með vandræðaunglingunum“ en ég passaði ekki þar inn.“
Mér fannst allir koma fram við mig eins og ég væri gallað módel eins og ég ætti að vera einhvers staðar annars staðar. Ég var með félagsfælni og átti erfitt með margmenni og skólinn gat ekki á því. Ég hef oft velt því fyrir mér af hverju ég fékk ekki að vera í venjulegum bekk í skóla.“
Eftir gagnfræðaskólann lá leið Björgvins út á vinnumarkaðinn.
„Ég vann hjá Kóka Kóla í sex ár, fyrst á lagernum og síðan fór ég í vélasalinn að tappa kók á flöskur sem mér líkaði mjög vel. Frá Kók fór ég yfir í byggingariðnaðinn og flakkaði á milli Ístaks og Íslenska Aðalverktaka í þrettán ár. Hjá þeim vann ég alltaf sem óbreyttur verkamaður. Ég var handlangari, hjálpaði smiðunum að setja upp milliveggi, sópaði og gekk frá.
Þegar við vorum að byggja Skuggahverfið vann ég eins og skepna og fékk undir 200 þúsund krónur í laun fyrir mjög slítandi vinnu. Ég hafði unnið hjá þeim í mörg ár þegar ég sá launaseðil hjá öðrum manni sem var nýbyrjaður en hann var samt að fá hærra kaup en ég. Þá fór ég að nefna það að ég væri hlunnfarinn.
Þegar Björgvin reyndi að benda á óréttlætið sem hann var beittur, urðu viðbrögð vinnuveitandans ekki þau sem hann vonaðist eftir.
„Upp úr því fór ég að fá hótunarbréf frá verkstjóranum sem snérust um það að ég þyrfti að standa mig betur og þeir myndu sjá til þess að ég fengi ekki vinnu annars staðar. Ég hitti manninn sem skrifaði bréfin á hverjum degi í vinnunni og var orðin mjög kvíðinn. Þetta bitnaði á vinnunni og mætingu minni sem hafði aftur áhrif á fjárhaginn. Ég þorði ekki að hætta afþví ég vissi ekki hvenær ég fengi aðra vinnu. En ég hafði keypt mér íbúð í Vesturbænum og þurfti að standa í skilum og gat ekki hugsað mér neina fjárhagslega óvissu.“
Staða Björgvins var slæm og hann upplifði mikinn kvíða. Loks ákvað hann að snúa sér til trúnaðarmanns.
„Ég sat uppi með þessi bréf í eitt ár. Þegar ég kvartaði loksins við skrifstofuna og fór að athuga hvort að það væri trúnaðarmaður hjá fyrirtækinu kom í ljós að það var engin. Ég sagði loksins upp og sagði þeim að ég myndi fara með bréfin í Eflingu. Fyrst vildu þau ekkert kannast við bréfin og síðan sögðu þau mér að ég myndi bara lenda í vandræðum ef ég færi að kvarta og kannski ekki fá atvinnuleysisbætur. Ég brotnaði á endanum saman.
Þegar ég seinna opnaði á þetta og fór að tala um ástandið þá var mér bent á að þetta væri einelti og núna er mér kunnugt um að margir útlendingar eru að lenda í svipuðum aðstæðum í dag. En ég hef auðvitað alltaf lifað meir og minna við einelti og er lítill í mér þannig að ég var seinn að taka við mér í þessu máli.“
Björgvin fór og leitaði sér aðstoðar við að vinna úr eineltinu og leitaði til Hugarafls.
„Ég fékk hjálp í gegnum Hugarafl. Þar lærði ég fyrst að tala um einelti, þunglyndi og félagsfælni. Ég fór meir að segja í skóla og hitti 100 unglinga sem var auðvitað álag fyrir mann með mína félagsfælni, sérstaklega þegar þau höfðu engan áhuga á því sem ég var að tala um. En kannski gagnaðist þetta einum hlustanda og þá væri þetta ekki til einskis.
Ég er óvinnufær eins og er. Ég veiktist og fór í hjartaþræðingu og er á hjartameðölum. Fyrir utan það er ég með bjúggigt og kemst varla í skóna. Ég tek lyf við þessu sem veldur því að ég er stöðugt að tappa af og þarf alltaf að vera í seilingar fjarlægð frá klósettinu.
Björgin er metinn fimmtíu prósent óvinnufær. Það er því metið svo að hann geti gegnt hálfu starfi á móti örorkubótum.
„En það er enga hálfsdags vinnu að fá fyrir mann með enga heilsu, ég er svo móður að ég get varla gengið á milli staða.“
„Á meðan ég er metin sem 50% öryrki þá borgar Tryggingamálastofnun mér 30 þúsund krónur á mánuði og ég fæ 104 þúsund krónur frá Gildi í mótframlag. Fyrir utan þetta fæ ég 30 þúsund krónur frá Þjónustumiðstöð Vesturbæjar af því að þau sjá að ég get ekki lifað fyrir 134 þúsund krónur á mánuði. Ég veit ekki hvernig þetta væri ef ég væri að leigja.“
Heimilislæknir Björgvins sagði honum að ekkert væri hægt að gera í stöðunni nema bíða í eitt ár í viðbót og leita þá eftir endurmati til að freista þess að fá metna hærri örorku og fullar bætur.
„Eins og staðan er núna þá er ég ekki löggiltur öryrki sem þýðar að ég er með skertar bætur og ég fæ ekki örorkukort sem ég gæti notað í strætó og sund sem munar miklu. Ég held að fullar örorkubætur eftir skatt séu um það bil 260 þúsund krónur þegar búið er að taka skatt af bótunum.
Ég ætla hins vegar að kæra matið og fá ástand mitt endurmetið. Núna stend ég í því að útvega mér nýjan heimilislækni og safna öllum hugsanlegum gögnum um mig saman á eina hendi.“
„Eins og staðan er þá leyfi ég mér ekki neitt og geri lítið annað en að fara í Hlutverkasetrið þar sem ég er í endurhæfingu og fæ að vinna í sjálfum mér. Hlutverkasetrið hefur hjálpað mér svo mikið með félagsfælnina. Áður talaði ég varla við nokkurn mann og núna er ég óstöðvandi og hlakka oft til að fara þangað á morgnanna. Ég er með mörg áhugamál, mér hefur aldrei leiðst. Ég tek myndir, ég mála og spila á gítar. Til þess að manni líði vel er gott að hafa nóg að gera. Ég er bara enn þá svo líkamlega illa á mig komin sem er mér til trafala.“
„Mitt annað athvarf er Kjötborg á Ásvallagötu en þar hef ég kynnst fullt af fólki og núna heilsa ég öllum í hverfinu. Ég er í sjálfboðavinnu og þríf hjá gömlum vini sem situr bara heima og horfir á sjónvarpið. Bræðurnir í Kjötborg kynntu okkur og fyrir þeirra tilstilli lít ég til með honum og reyni að hvetja hann til þess að fara á Grund að spila Bridge eða gera eitthvað félagslegt þótt að hann sýni því takmarkaðan áhuga. Mér þykir voða mikið vænt um Vesturbæinn þótt að ég fái blendnar tilfinningar þegar ég labba fram hjá gamla Stýrimannaskólanum, en þá hugsa ég með mér: „Þetta er allt löngu liðið“.“