fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Þorsteinn krassaði í snjóflóðinu á Flateyri: „Þetta voru miklar hetjur í leitinni“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Laugardaginn 16. mars 2019 14:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég var að skoða klakann, hann er svo þykkur víða og þegar sandurinn fer yfir þá tefur hann fyrir þýðu, og þá er fínt að sulla smá salti á þetta. Ég er í gangstéttunum, við sjáum um svæðið fyrir vestan Elliðarárnar,“ svona hefst frásögn Þorsteins Einarssonar, flokkstjóra 2 á Hverfisstöðinni á Njarðargötu.

Hann er meðlimur í Eflingu og deilir sögu sinni á Facebook síðu átaksins „Fólkið í Eflingu“. Þar má einnig finna fjölmargar aðrar sögur fólksins í stéttafélaginu, fólks sem vinnur margvísleg störf í íslensku samfélagi en oft á tíðum fyrir lág laun.

Þorsteinn hefur unnið eins og skepna allt sitt líf og upplifað ýmislegt þar á meðal snjóflóðið á Flateyri árið 1995, sem margir Íslendingar muna eftir. Það er engin ástæða til að breyta þessari frásögn og ætti enginn að láta hana framhjá sér fara.

„Maður hefur alltaf unnið eins og skepna.

„Fyrst vann ég undir Gatnamálastjóra. Ég veit varla hvar ég vinn í dag afþví núna heitir þetta svo svakalegu nafni: „Umhverfis og Skipulagssvið, Rekstur og Umhirða borgarlands, Hverfastöðin Njarðargötu“.

Maður hefur alltaf unnið eins og skepna. Ég fór snemma út á vinnumarkaðinn, ég var eitthvað í vélvirkjun og svo stökk ég á sjóinn, ég mátti ekkert vera að þessu, mig vantaði pening. Tvítugur kynnist ég konunni minni, við giftum okkur og fluttum á Sauðakrók þaðan sem hún var, þar vann ég í frystihúsi og blikksmiðju.

„Komið út að hjálpa við leitina.“

Ég var 25 ára þegar ég byrjaði hérna árið 94. Við fluttum suður, konan fór í nám og ég vann hérna í eitt og hálft ár. Síðan vantaði pening og ég fór á Flateyri, í frystihúsið og ætlaði á línubát. Ég var komin með pláss og var að bíða eftir bátnum, þetta var 1995. Ég vann hjá Kambi og bjó í verbúðinni. Það var brjálað veður, maður var vakinn upp, og það var öskrað inn í verbúðina: “Komið út að hjálpa við leitina”. Við sáum ekki handa okkar skil, það var snarvitlaust veður, við vorum bara með skóflu og stöng, engar ílur.

Það liðu um það bil 5 tímar þar til fyrsta hjálpin kom frá Ísafirði. Þegar hjálpin kom þá fékk engin að fara út nema að vera með snjóflóðaílur og það fór reyndar ekkert að gerast fyrr en hundarnir komu. Hundarnir eru snilldarkvikindi. Ég fann persónulega muni frá systur vinar míns frá Seyðisfirði, hún fórst með fjölskyldu sinni.

„Engin áfallahjálp maður drakk bara ofan í þetta.“

Það var grafinn skurður og við fórum ofan í og hjuggum með stunguspaða í vegginn. Ég hjó næstum því á hönd, og þá var þarna drengur sem ég þekkti með kærustunni sinni. Þegar ég fann þau og eftir að hafa séð svipinn á honum þá gat ég ekki meir. Ég krassaði.

Þarna voru mörg lík, heil fjölskylda, fimm manna fjölskylda með lítið ungabarn.

Þetta voru miklar hetjur í leitinni, með sterkar taugar, vanir menn að Vestan. Ægir, landhelgisgæslan sótti okkur. Við fórum mörg með skipinu í bæinn. En engin áfallahjálp maður drakk bara ofan í þetta.

Eftir þetta fór ég á bát á Hofnarfjörð. En fékk svona öfluga sinaskeiðabólgu í hendurnar á báðum og þurfti að fara í uppskurð. Ég var með góðar tekjur á þessum báti og svo þrjóskur að ég hélt áfram að vinna, reyndi bara að hrista blóðið fram í hendurnar. „Þú hefðir getað misst þær“ sagði læknirinn sem skar mig.

„Smákóngar innan kerfisins deildu þessu út.“

En eftir bátsferðina 1997 kom ég aftur hingað í Hverfisstöðina. Ég var mikið í hellulögnum og malbiksvinnu og fór líka í klóakið þegar hinir voru hræddir við rotturnar, og fékk 80 krónur aukalega á tímann í klóakinu. Þetta hefur allt breyst hjá okkur, ekki eins fjölbreytt og það var. Áður en saltbíllinn kom var mokað með höndunum. Þá vann maður eitt árið 100 yfirvinnutíma á mánuði.

Um svipað leyti og þetta breyttist í Umhverfissvið fannst mér það snaraukast að verkin fóru til verktaka. Við höfðum verið með holræsin en þau fóru yfir í Veitu. Við vorum að helluleggja heilu göturnar en núna er þetta allt komið í verktaka. Smákóngar innan kerfisins deildu þessu út. Gamall jálkur einsog ég spyr sig oft: „Hvern fjandann gerðist?

Mér fannst allt skilvirkara þegar Gatnamálastjóri var hérna Ég er viss um að borgarbúar hafi fengið meira fyrir útsvarið sitt áður en Framkvæmdarsvið tók við.

„Allt mitt líf snýst um að ná utan um mitt líf“

Við fórum alla laugardags- og sunnudagsmorgna um fimm leytið, tæmdum alla stampa og hreinsuðum bæinn. Sópa burt undan bekkjum og hornum þar sem vélsópurinn náði ekki til. Við sáum um miðbæjarhreinsunina áður en þetta fór allt yfir til Hreinsitækni. Leikskólarnir eru líka komnir til verktaka, við sjáum bara um söndun og söltun á leikskólunum.

Núna er þetta meira ruslatínsla, hirðing og þjónusta. Við sjáum um einhverjar holur í götum og þá verðum við að bregðast snöggt við. Frá því að holan er tilkynnt höfum við 90 mínútur til þess að laga, annars erum við ábyrgir og borgin bótaskyld. Eitt sinn skemmdust sjö bílar eftir eina holu.

Ég var orðin afi fertugur, ég er fráskilin, ég á eina dóttur og tvö barnabörn. Ég leigi og bý einn. Allt mitt líf snýst um að ná utan um mitt líf.“

Sjá fleiri sögur um fólkið í Eflingu

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Erna segir skilið við Miðflokkinn en hafði sóst eftir oddvitasæti – „Miðflokkurinn gekk úr mér“

Erna segir skilið við Miðflokkinn en hafði sóst eftir oddvitasæti – „Miðflokkurinn gekk úr mér“
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Össur tætir Pírata í sig: „Málefnalega skipta þau ekki lengur máli“

Össur tætir Pírata í sig: „Málefnalega skipta þau ekki lengur máli“
Fréttir
Í gær

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“
Fréttir
Í gær

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“