Sagnfræðingurinn og stjórnmálaskýrandinn Stefán Pálsson lýsir í stöðufærslu sinni á Facebook raunum sínum í Kaupmannahafnarferð. Þar lenti hann í því að veski hans var stolið, en þrátt fyrir að þjófurinn hafi tekið alla peninga sem í veskinu voru, þá sá hann eigi að síður ástæðu til að skila veskinu ásamt öðru innihaldi þess á hótel Stefáns.
„er nánast hrærður. Lenti í heiðvirðasta glæpamanni í heimi. Veskið mitt var tekið á bar í Kaupmannahöfn. Í því voru öll kort og öll skilríki, þar á meðal vegabréfið. Sá fram á dag í að redda pappírum. – Nema hvað: sá/sú sem hirti veskið ákvað að ryksuga upp alla peninga (þar með talið íslensku krónuna – segið svo að þetta sé ónýtur gjaldmiðill) en labbaði svo með veskið í hótellobbýið (herbergislykillinn var í veskinu). Þetta var svona fimm mínútna gangur. Aldrei áður hef ég upplifað það að vera rændur en öðlast um leið meiri trú á mannkynið.“