Icelandair Group hefur ákveðið að taka Boeing 737 MAX 8 flugvélar sínar úr rekstri um óákveðinn tíma. Félagið er með þrjár slíkar vélar í rekstri. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.
„Félagið fylgist náið með þróun mála og vinnur áfram með flugmálayfirvöldum á Íslandi, í Evrópu og Bandaríkjunum varðandi næstu skref. Miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir, þá öryggisferla sem félagið fylgir, sem og þjálfun áhafna þess, telur félagið vélarnar öruggar.“
Í tilkynningunni kemur fram að til skamms tíma muni þessi ráðstöfun hafa óveruleg áhrif á rekstur félagsins þar sem aðeins er um 3 vélar að ræða af 33 farþegavélum í flota félagsins. Því hafi félagið svigrúm til að bregðast við á næstu vikum.