Vísir skýrir frá þessu í dag. Þar er haft eftir Svanhvíti Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa WOW air, að fyrirtækið hafi verið í góðum samskiptum við lífeyris- og séreignarsjóði vegna þessa og að gengið verði frá greiðslum nú í mars. Hún sagði einnig að starfsfólk hafi verið upplýst um stöðu mála.
Hún sagði jafnframt að aðeins væri um tafir að ræða á greiðslu mótframlags WOW air því hluti starfsmanna hafi verið greiddur.
Það eru greiðslur fyrir nóvember, desember og janúar sem fyrirtækið á eftir að standa skil á. Febrúargreiðslur eru ekki komnar á gjalddaga.
Staða WOW air hefur verið slæm eins og komið hefur fram í fréttum og fyrir áramót sagði fyrirtækið 350 manns upp í hagræðingarskyni.
Enn standa yfir viðræður á milli WOW air og Indigo Partners um kaup þess síðarnefnda á WOW air.