Þrátt fyrir yfirstandandi samningaviðræður við Indigo Partners um að félagið kaupi 49% hlut í WOW Air reyndu forsvarsmenn WOW Air fyrir skömmu að fá Icelandair aftur að samningaborðinu og taka upp þráðinn í viðræðum um yfirtöku á félaginu sem slitnaði upp úr í nóvember. Frá þessu er skýrt á vefnum Túristi.is. Kemur það fram að Icelandair hafði ekki áhuga á endurteknum viðræðum.
Þá segir í sömu frétt að lausafjárstaða WOW Air sé erfið og launagreiðslur hafi dregist um síðustu mánaðamót.
Samningar milli WOW Air og Indigo hafa ekki tekist en markmiðið var að ljúka þeim fyrir síðustu mánaðamót. Viðræðunum verður haldið áfram og er markmiðið að ganga frá samstarfi þann 29. mars.