RÚV skýrir frá þessu. Eins og DV skýrði frá í gærkvöldi sáust ummerki um að bíl hefði verið ekið út í ána auk þess sem sjónarvottar voru að því. Þá hefur brak fundist í ánni.
Rúmlega hundrað björgunarsveitarmenn, lögreglumenn, slökkviliðsmenn og starfsmenn Landhelgisgæslunnar tóku þátt í leitinni. Leitað var úr lofti með þyrlu Gæslunnar, björgunarsveitarmenn voru á bátum á ánni og árbakkar voru gengnir. Aðstæður á vettvangi voru erfiðar, myrkur, hvasst og rigning.
RÚV hefur eftir Oddi Árnasyni, yfirlögregluþjóni á Selfossi, að öllu hafi verið tjaldað til leitarinnar í nótt sem kostur var á. Leitarmenn höfðu gengið bakka Ölfusár allt til Ósa í nótt en án árangurs. Hlé var síðan gert á leitinni og fólk sett á vakt á ákveðnum stöðum við ána.