fbpx
Miðvikudagur 25.desember 2024
Fréttir

Styrmir um íslenska djúpríkið: „Er kannski eitthvað „ógeðslegt“ við samfélag okkar?“

Ritstjórn DV
Laugardaginn 23. febrúar 2019 10:58

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, veltir því upp hvort hér á landi sé eitthvað sem mætti skilgreina sem „djúpríki“ – leynilegt bandalag hagsmunaafla sem hefur það markmið að tryggja eigin stöðu umfram aðra þjóðfélagsþegna en á kostnað þeirra.

Þetta gerir Styrmir í athyglisverðri grein í Morgunblaðinu í dag. Í grein sinni rekur Styrmir sögu þessa hugtaks, „djúpríki“, og segir hann það hafa skotið upp kollinum í bandarískri stjórnmálaumræðu. „Með „djúpríki“ er átt við eins konar ósýnilegt og leynilegt bandalag hagsmunaafla innan og utan stjórnkerfisins til þess að koma í veg fyrir að kjörnir fulltrúar þjóðar hverju sinni geti ráðið gangi mála,“ segir Styrmir.

Ósýnilegt og andlitslaust bandalag

Styrmir segir að þar sem hugtakið hafi komið við sögu hafi yfirleitt verið talað um bandalag leyniþjónustu viðkomandi lands, hers, háttsettra embættismanna og hagsmunaaðila utan stjórnkerfis. Styrmir bendir á að hér sé hvorki leyniþjónusta né her.

„En engu að síður hafa hin síðari ár vaknað spurningar um hvort til hafi orðið eins konar ósýnilegt og andlitslaust bandalag þar sem valdamestu stjórnmálamenn, æðstu embættismenn, sérfræðingar svo og hagsmunaöfl utan stjórnkerfisins, bæði í atvinnuvegasamtökum og fjármálageira, komi við sögu sem hafi það að markmiði að tryggja eigin stöðu umfram aðra þjóðfélagsþegna en á kostnað þeirra.“

Styrmir segir að samheiti fyrir þetta fyrirkomulag hafi verið manna á meðal orðið „kjararáð“ en þar sem það hefur verið lagt niður dugar það ekki. „Getur verið að hér sé á ferð eins konar íslenzk afleiða af „Deep State“ – djúpríki? Þetta er umhugsunarverð pæling,“ segir Styrmir sem bætir við að íslenska útgáfan af djúpríki sé frábrugðin þeirri sem vinsælust er meðal samsæriskenningasmiða vestan hafs. Hér sé ekki verið að útiloka áhrifamestu stjórnmálamennina heldur hafi þeir sennilega verið innlimaðir í djúpríkið.

„Það gæti verið skýringin á því að þegar aðilar vinnumarkaðar hafa talað reglulega í heilt ár við ráðherra standa þeir allt í einu orðlausir frammi fyrir skattatillögum sem þeir héldu og trúðu að yrðu á allt annan veg. Er hugsanlegt að íslenzka djúpríkið hafi haft meiri áhrif á innihald skattatillagna en ráðherrarnir sem við var talað?! Þetta er sagt bæði í gamni og alvöru.“

Kemur djúpríkið þarna við sögu?

Styrmir rifjar svo upp og segir að í vikunni hafi hann setið og rætt samfélagsmálin við tvo menn sem komnir eru hátt á áttræðisaldur. Þessir men hafi haft verulegar áhyggjur af stöðu mála hér á landi og bent á að unga fólkið vildi ekki lengur eiga heima á Íslandi. Fleiri af yngri kynslóðinni flytti út en kæmi heim frá námi.

„Fyrir miðja síðustu öld hafði fólk í hinum dreifðari byggðum landsins áhyggjur af því að unga fólkið kæmi ekki til baka til sinna heimabyggða að loknu námi við Háskóla Íslands. Er hugsanlegt að nú séum við, íslenzkt samfélag, í sömu sporum og dreifbýlið þá þegar kemur að eftirsóknarverðri framtíð fyrir íslenzkt æskufólk? Ef svo er hvað er það í okkar samfélagsgerð sem veldur? Kemur íslenzka djúpríkið þar við sögu? Er kannski eitthvað „ógeðslegt“ við samfélag okkar sem hrekur fólk í burtu,“ spyr Styrmir.

Kjaradeilurnar snúast um tvískiptingu samfélagsins

Styrmir segir að kjaradeilurnar sem nú standa yfir snúist um meira en kaup og kjör. Raunar hafi þau miklu átök og sú harka sem nú blasir við legið fyrir frá miðju árið 2016 þegar kjararáð tók ákvarðanir um kaup og kjör æðstu embættismanna, þingmanna og ráðherra. Aðrir hafi vitanlega litið til þeirra sem fordæmis. Styrmir segir að kjaradeilurnar nú snúist um þá tvískiptingu sem orðið hefur í samfélaginu eftir hrun, ekki eingöngu um kaup og kjör.

„Að vísu var íslenzka dúpríkið orðið til fyrir hrun. Þá var það fjármálageirinn og viðskiptalífið sem stjórnaði ferðinni en ekki kjörnir fulltrúar þjóðarinnar. Hrunið gerði ekki út af við það djúpríki. Það endurskipulagði sig bara með nýjum hætti. En þótt kaup og kjör séu alvarlegt mál og lífskjör hinna lægstlaunuðu samfélaginu til skammar er þó enn meiri hætta á ferðum ef gömlu mennirnir, sem vitnað var til hér að framan, hafa rétt fyrir sér, að æskufólk vilji ekki búa á Íslandi.“

Styrmir spyr hvort það gæti verið að á þingi sé ekki til fólk í öllum flokkum sem er tilbúið af taka af skarið og segja: „Hingað og ekki lengra. Við verðum að ná saman í yfirstandandi kjaradeilu, ekki bara samningum um kaup og kjör, heldur sátt um samfélagssáttmála sem hafi þau áhrif að framtíð Íslands vilji eiga heima hér áfram.“

Segir Styrmir að í herbergjum þingflokkanna yppti menn öxlum og segi að tala f þessu tagi sé raus í gömlum körlum. „En vandi flokkanna er sá – og ekki sízt Sjálfstæðisflokksins – að þungavigtin í fylgi þeirra er nú ekki sízt hjá eldri kynslóðum sem hafa meira að segja kosningarétt. Í Bretlandi er nú mikið uppnám í pólitíkinni. Þingmenn eru að ganga úr báðum flokkum en að auki er hreyfing í flokksfélögum um að lýsa vantrausti á þingmenn flokkanna í sumum kjördæmum. Á allmörgum undanförnum mánuðum hefur mátt finna í einstökum flokksfélögum Sjálfstæðisflokksins á höfuðborgarsvæðinu undiröldur sem ekki brjótast fram í opnum umræðum að ráði. Ferðalag þingmanna Sjálfstæðisflokksins um landið á dögunum var til fyrirmyndar. Heyrðu þingmenn slíkar raddir?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Egill Þór er látinn

Egill Þór er látinn
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Óveður á aðfangadagskvöld: „Líklegt að veðrið muni hafa áhrif á jólin á stórum hluta landsins þetta árið“

Óveður á aðfangadagskvöld: „Líklegt að veðrið muni hafa áhrif á jólin á stórum hluta landsins þetta árið“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Fjöldamorðinginn í Madgeburg var yfirlýstur andstæðingur Íslams

Fjöldamorðinginn í Madgeburg var yfirlýstur andstæðingur Íslams
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sakamál ársins I: Æði rann á fjölskylduföður, Interpol lýsti eftir Pétri, stórþjófar í Hamraborg og barnaníðingur í Dalslaug

Sakamál ársins I: Æði rann á fjölskylduföður, Interpol lýsti eftir Pétri, stórþjófar í Hamraborg og barnaníðingur í Dalslaug
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Ný ríkisstjórn kynnt við vetrarsólstöður

Ný ríkisstjórn kynnt við vetrarsólstöður
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Egill Helgason fékk heldur betur „rausnarlega“ gjöf frá Íslandsbanka

Egill Helgason fékk heldur betur „rausnarlega“ gjöf frá Íslandsbanka