Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að fulltrúar verkalýðsfélaganna muni funda um helgina til að fara yfir stöðu mála. Samninganefnd Eflingar samþykkti í gær að á mánudaginn hefjist leynileg atkvæðagreiðsla um skæruverkfall þann 8. mars næstkomandi.
Starfsgreinasambandið vísaði í gær viðræðum sínum við SA til ríkissáttasemjara. Morgunblaðið hefur eftir Halldóri Benjamín Þorbergssyni, framkvæmdastjóra SA, að viðræðuslitin og undirbúningur atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun séu alvarlegir hlutir sem feli í sér verulegan þjóðhagslegan kostnað og það jafnvel þótt verkföll séu ekki hafin.
Haft er eftir honum að allt samfélagið tapi á verkfallsaðgerðum og dragi úr getu atvinnurekenda og fyrirtækja til að standa undir sjálfbærum launahækkunum til framtíðar. Hann sagðist vonast til að ekki komi til verkfallsaðgerða og mikið sé í húfi til að geta afstýrt þeim.
Hann sagði ljóst að SA og verkalýðsfélögin verði að funda aftur hjá ríkissáttasemjara en ljóst sé að mikið beri á milli. Tilboð SA takmarkist af því sem fyrirtækin í landinu geti staðið undir á næstu árum.