Áhyggjufullur faðir hafði samband við DV vegna kókaínfaraldurs á Sauðárkróki og sagði hann fólk hafa verið handtekið með kókaín í fórum sínum í nokkrum tilvikum á stuttum tíma. Maðurinn segist vera faðir unglinga og honum finnist óþolandi að svona viðgangist í jafnlitlum bæ og Sauðárkrókur er. Segir maðurinn að áform hafi verið um að selja drýgt kókaín á unglingaballi Samfés í bænum en ekki hafi orðið af því þar sem lögregla hafi náð að gera efnið upptækt.
DV hafði samband við Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjón Lögreglunnar á Norðurlandi Vestra, og kannaðist hann við málin.
„Við höfum tekið í þrígang aðila með kókaín á undanförnum vikum. Við höfum svo sem tekið svona efni áður en þetta er mikið á svona stuttum tíma og þetta er ekki normið.“
Stefán segir liggja fyrir að efnið hafi í öllum tilvikum verið ætlað til sölu, hins vegar hafi þetta samt ekki verið mikið magn. „Þetta var ekki í kílóavís.“
Stefán segir að fólkið sem lagt var halda á kókaín hjá hafi verið látið laust að loknum yfirheyrslum. Ekki var um sömu aðila að ræða í öllum tilvikum. Aðspurður um áform um sölu á drýgðu kókaíni á Samfésballi sagðist Stefán ekki geta tjáð sig neitt um það.