Ástralska konan Nara Walker, 29 ára gömul, hefur afplánun fangelsisrefsingar sinnar í fangelsinu á Hólmsheiði á morgun. Af því tilefni hefur stuðningshópur hennar boðað til mótmæla fyrir utan fangelsið frá kl. 16:30 á morgun. Á Facebook-síðu viðburðarins segir:
Nara Walker var dæmd í fangelsi fyrir að reyna verja sig gegn ofbeldisfullum eiginmanni.
Nú þurfum við að standa saman til að vekja athygli á óréttlætinu sem er innbyggt í refsivörslukerfið og ætlum að vera fyrir utan fangelsið á Hólmsheiði á miðvikudag kl 16:30, þegar Nara verður fangelsuð, með límband fyrir munni sem er táknrænt fyrir raddleysi kvenna í réttarkerfinu.
Gott er að vera komin tímanlega.
Stöndum saman gegn meingölluðu „réttar“kerfi.
Nara Walker var dæmd í 12 mánaða fangelsi, þar af 9 skilorðsbundið, fyrir tvær líkamsárásir sama kvöldið. Sú alvarlegri var á eiginmann hennar en hún var sakfelld fyrir að hafa meðal annars bitið tungu hans í sundur. Nara hefur sakað eiginmann sinn um ofbeldi gegn sér. Nara var einnig sakfelld fyrir árás á vinkonu sína sama kvöld sem var gestkomandi á heimili hennar, tekið í hár hennar, slegið hana og klórað hana í framan. Var vinkonan með nokkra áverka eftir árásina. Dóminn má lesa hér.