Mál vikunnar var umfangsmikið og þaulskipulagt svindl sem bílaleigan Procar stóð fyrir og upplýst var um í fréttaskýringarþættinum Kveik á RÚV. Meirihlutaeigandi félagsins er Haraldur Sveinn Gunnarsson, gjarnan kallaður Harry, og þegar skyggnst er bak við tjöldin má sjá að viðskiptasaga hans er skrautleg í meira lagi.
Haraldur Sveinn var einn af stofnendum Fasteignafélags Austurlands ehf. Félagið fékk milljarða króna lán hjá Íbúðalánasjóði til uppbyggingar á Austurlandi. Í árslok 2007 átti Haraldur Sveinn félagið ásamt viðskiptafélaga sínum Ágústi Benediktssyni. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð kom fram að á sama tíma og félagið fékk 1,5 milljarða lán frá Íbúðalánasjóði árið 2007 var eiginfjárhlutfall þess aðeins um 2%. Reglur sjóðsins kváðu þó um að lágmarkið væri 10% eiginfjárhlutfall.
Félagið sem fékk lánað frá Íbúðalánasjóði gerði svo samninga við félagið Byggingarverktakar Austurlands ehf. sem var í eigu sömu aðila, um byggingu fjögurra, sex hæða fjölbýlishúsa á Reyðarfirði á árunum 2004–2007. Á árunum 2007 til 2009 lækkaði verð á íbúðum á Austurlandi um 21% og fasteignafélaginu blæddi út. Á sama tíma gekk verktakafyrirtækinu allt í haginn og gátu eigendurnir greitt sér út 430 milljónir króna í arð út úr því.
Félögin sameinuðust svo undir nafni Fasteignafélags Austurlands ehf. í lok árs 2007. Félagið var svo úrskurðað gjaldþrota árið 2011 og sat Íbúðalánasjóður uppi með 2,2 milljarða króna skuld og gríðarlegan fjölda íbúða á erfiðu markaðssvæði. Haraldur Sveinn ávaxtaði svo sitt pund með því að skella sér út í bílaleigubransann.