Aldís Schram, dóttir Jóns Baldvins Hannibalssonar, birtir á Facebook-síðu Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingmanns Pírata, kæru hennar á hendur Herði Jóhannessyni aðstoðarlögreglustjóra. Hún segist hafa kært Hörð til Héraðssaksóknara fyrir möguleg brot hans á þagnarskyldu.
Jón Baldvin hefur áður sagt að hann hafi í fórum sínum vottorð frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2012 þar sem er sagt er að lögregla hafi haft afskipti af Aldísi. Undirskrift Harðar er á vottorðinu.
Aldís telur að með þessu hafi Hörður mögulega brotið gegn þagnarskyldu. „Erindi mitt varðar ætlað brot Harðar Jóhannessonar lögreglumanns á þagnarskyldu sinni sem lögreglumanns sem og mögulegt brot hans á öðrum ákvæðum almennra hegningarlaga í því samhengi. Tilefnið eru blaðaskrif og opinber ummæli Jón Baldvins Hannibalssonar þar sem hann heldur því fram að hann hafi vottorð frá umræddum Herði Jóhannessyni undir höndum um afskipti lögreglu af undirritaðri og aðkomu Jóns Baldvins og konu hans Bryndísar Schram að því,“ segir í kæru Aldísar.
Hún telur rétt að rannsaka hvort hann Hörður hafi gefið út vottorðið í ávinningsskyni. „Með bréfi þessu vil ég leggja fram kæru á hendur Herði, fyrir að hafa gefið út slíkt vottorð. Má ætla að vottorð af því tagi sem Jón Baldvin lýsir í fjölmiðlum brjóti í bága við þagnarskylduákvæði lögreglulaga 1. mgr. 22. gr. lögreglulaga og 1. mgr. 136. gr. almennra hegningarlaga. Sömuleiðis telur undirrituð ástæðu til þess að rannsaka hvort Hörður Jóhannesson hafi gefið út vottorð af þessu tagi í ávinningsskyni, sem þá gæti einnig varðað við 1. mgr. 128. gr. almennra hegningarlaga,“ segir í kæru Aldísar.
Sjá einnig: Jón Baldvin segir Aldísi ljúga – Vísar í vottorð frá lögreglunni undirritað af lögreglustjóra
Hún vísar til þess að Jón Baldvin hafi vitnað í þetta vottorð í tvígang. Annars vegar í Silfrinu í alræmdu viðtali sem og í grein sem birtist í Morgunblaðinu þann 7. febrúar. Í greininni vitnar Jón Baldvin í þetta vottorð en þar segir: „Lögreglan hefur nokkrum sinnum á undanförnum árum haft afskipti af Aldísi Baldvinsdóttur (kt. 210159-4449) eða sinnt verkefnum vegna hennar. Að gefnu tilefni skal tekið fram að foreldrar hennar, Bryndís Schram og Jón Baldvin Hannibalsson, hafa aldrei kallað á lögreglu eða beðið lögreglu um aðstoð af neinu tagi hennar vegna. Þetta staðfestist hér með.“ (Undirskrift: Hörður Jóhannesson aðstoðarlögreglustjóri.)“