Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Þar segir að Veitur ohf. hafi tvöfaldað orkureikninginn til að knýja á um álestur. Húsráðandinn, Rúnar Stanley Sighvatsson, gleymdi hins vegar að lesa á mælana, þótt beiðni þar um væri ítrekuð. Í lok sumars fékk hann skilaboð um að reikningur hans hefði verið hækkaður úr 17.861 krónur í 37.730 krónur og var sú upphæð gjaldfærð á greiðslukort hans.
Rúnar var ósáttur við þetta og kvartaði til Orkustofnunar sem segir að ekki megi hækka áætlun sem hluta af þvingunarúrræði til að knýja fram álestur. Því hafi tvöföldun áætlunar og reikningsupphæðar verið ólögleg í þessu tilfelli.