Í dagskrá Kærleiksvikunnar verður meðal annars heilunarguðsþjónusta í Lágafellskirkju. Þar mun séra Arndís Bernharðsdóttir og græðarar sjá um söng, bæn, handayfirlagningu og smurningu. Einnig verður spákaffi í Mosfellsbakaríi þar sem hægt verður að kaupa fimmtán mínútna spá. Á vef Kærleikssetursins sést að aðrir viðburðir verða í boði þá um helgina. Meðal annars heilun og talna- og stjörnuspeki.
Kærleikssetrið er fyrirtæki sem býður upp á námskeið, einkatíma, skyggnilýsingu, fyrirbænir, vörur og fleira sem tengist heilun eða óhefðbundinni „uppbyggingu sálar og líkama.“ Hjá fyrirtækinu starfa starfsmenn sem sérhæfa sig meðal annars í transheilun, stjörnuheilun, reiki, miðlun og tarotspilum.
Arnar Jónsson, forstöðumaður þjónustu og samskiptadeildar Mosfellsbæjar, segir að um misskilning hafi verið að ræða milli bæjarins og þeirra sem skipuleggja hátíðina sjálfa. Kærleikssetrið hafi ekki átt að vera auglýst þar. „Þetta hefur verið talið saklausara af skipuleggjendunum, en ég met það,“ segir hann. Muni bærinn í kjölfarið breyta auglýsingunni á heimasíðu sveitarfélagsins. Fjárveitingar til Kærleiksvikunnar af hálfu bæjarins hafa verið litlar, og engar til Kærleikssetursins.
„Við höfum greitt götu hátíðarinnar með því að setja fréttir inn á vef bæjarins og kynnt þetta hjá stofnunum okkar. Framlag Mosfellsbæjar hefur verið að greiða kostnað vegna auglýsingar á auglýsingaskilti við aðkomu að bænum. Kostnaður við það nemur um 60 þús.kr. og felst í vinnu við uppsetningu á segldúk þar sem segir Kærleiksvikan.“
Skoðuðuð þið ekki hvað þið voruð að setja inn á vefinn?
„Okkar aðkoma er eingöngu að þessum viðburðum sem auglýstir eru á okkar vef en ekki Kærleikssetursins. Það er reyndar talað um þetta spákaffi, en það er meira til gamans gert.“
Kærleiksvikan er ekki eina dæmið um gervivísindi í boði Mosfellsbæjar. Í Lágafellslaug var nýverið selt hómópatíuskyndihjálparsett á litlar 4.200 krónur. Hómópatía, eða smáskammtalækningar, hafa verið til í meira en tvö hundruð ár, en ekki hefur verið sýnt fram á að þær skili neinum beinum árangri, nema sem lyfleysa. Hómópatía er því almennt talin vera gervivísindi og henni gjarnan beitt á fólk á viðkvæmum stað í lífinu.