Grunur leikur á víðtækri brotastarfsemi á kampavínsklúbbnum Shooters sem innsiglaður var um helgina. Sannað er að sala á nektardansi hefur viðgengist á staðnum en grunur leikur á vændi og jafnvel mansali. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV í kvöld.
Þáttargerðarfólk fréttaskýringaþáttarins Kveiks fór með falda myndavél á staðinn. Í fréttinni segir meðal annars:
Lögreglu hefur borist fjöldi ábendinga frá því í haust um mögulega brotastarfsemi á Shooters. Svo virðist sem eftirgrennslan Kveiks hafi orðið til þess að meiri þungi hafi verið settur í rannsókn á staðnum en um helgina innsiglaði lögregla hann. Kveikur hefur heimildir fyrir því að grunur leiki á að þar hafi farið fram skipulögð brotastarfsemi. Auk nektardans sé verið að rannsaka hvort þar hafi farið fram fíkniefnasala, vændi, mansal og peningaþvætti.