„Ég tek fram að aðeins ein af þessum ásökunum sem bornar eru á mig hefur orðið að ákæru. Hún fór sinn gang í gegnum réttarkerfið. Þetta var ásökun um kynferðislega áreitni við unga stúlku en var síðan breytt í að særa blygðunarkennd. Ég var yfirheyrður, það voru leidd fram gögn og vitnaleiðslur og niðurstaðan var að kærunni var vísað frá. Þetta mál hefur síðan verið notað til að halda því fram að ég sé barnaníðingur,“ segir Jón Baldvin Hannibalsson um það atvik sem hann lýsir svo að hann hafi borið sólarolíu á líkama barns í viðurvist móður þess og ömmu.
Jón Baldvin var í viðtali í Silfrinu á RÚV þar sem hann svaraði fyrir ásakanir um kynferðislega áreitni og sifjaspell sem á hann hafa verið bornar í fjölmiðlum. Sagði Jón Baldvin að honum liði eins og hann væri á sakamannabekk í þessu viðtali en þó hefði hann ekki verið sakfelldur fyrir neitt.
Jón Baldvin hefur einnig verið sakaður um að hafa stuðlað að nauðungarvistun dóttur sinnar, Aldísar Schram, og slíkt hafi alltaf átt sér stað í kjölfar þess að hún bar á hann sakir. Jón segir þessar ásakanir vera fráleitar. „Enginn einn maður getur komið á nauðungarvistun, þar þarf að koma til álit fleiri en eins læknis og úrskurður dómsmálaráðuneytis.“ Jón segir að eini hlutur hans og Bryndísar eiginkonu hans í nauðungarvistunum dóttur hans hafi verið að bregðast við neyðarkalli lækna með því að veita samþykki.
Skrifaði dónalega bréfið drukkinn á flugvelli
Jón Baldvin viðurkennir að blautlegt bréf sem hann skrifaði ungri frænku sinni hafi verið ósæmilegt og segist hann hafa þráfaldlega beðist afsökunar á því. Bréfið skrifaði hann er hann var strandaglópur á flugvelli í 9 klukkustundir og drakk bjór. Segir hann að hann hefði aldrei skrifað slíkt bréf alsgáður en það sé engin afsökun. Sökin sé öll hans. Það hafi verið dómgreindabrestur hans að ætla að stúlkan gæti meðtekið það sem í bréfinu stóð.
„Þetta mál hefur síðan verið notað til að halda því fram að ég sé barnaníðingur,“ sagði Jón Baldvin.
Segir atvik á Spáni hafa verið sviðsett
Nýjasta ásökunin á hendur Jóni er að hann hafi strokið rass Carmenar Jóhannsdóttur í matarboði á Spáni sumarið 2018. Jón Baldvin segir að móðir hennar hafi hrópað upp þessa ásökun við matarborðið en sjónarvottur, kona að nafni Hugrún, segi að þetta hafi ekki gerst. Jón Baldvin telur að heimsókn mæðgnanna til hans og Bryndísar í hús þeirra á Spáni hafi verið sviðsett og til þess gerð að koma höggi á hann en mæðgurnar séu tengdar Aldísi dóttur hans.
Jón heldur því fram að flestar ásakanir á hendur honum um kynferðislega áreitni megi rekja til sögusagna dóttur hans. Spyrill þáttarins spurði þá hvernig dóttir hans gæti verið sá „Mastermind“ að fá allar þessar konur til að bera á hann sakir. Jón Baldvin benti á að dóttir hans hefði verið greind með geðhvarfasýki árið 1992. Fólk með þennan sjúkdóm sé margt afburðagreint og það gildi um hana. Jón Baldvin sagði að eftir að dóttir hans var greind með geðhvarfasýki hafi hún sakað hann um að hafa samfarir við báðar aðrar dætur sínar sem og við tengdamóður sína. Ásakanir hennar hafi leitt til þess að systurnar tali ekki við hana. Fjölskyldan hafi krafið Aldísi um að draga þessar ásakanir til baka og biðja hann afsökunar.
Segist ekki hafa kennt umræddum bekk í Hagaskóla
Tvær konur hafa stigið fram og sakað Jón Baldvin um kynferðislega áreitni gegn sér er hann var kennari þeirra í Hagaskóla árið 1967. Jón Baldvin segist hafa kallað eftir gögnum frá Hagaskóla sem leiði í ljós að hann hafi ekki kennt í umræddum bekk á þessum tíma. Þar af leiðandi ætli hann ekki að svara þessum ásökunum frekar.
Varðandi atvik frá Menntaskólanum á Ísafirði er Jón var skólameistari þar, er hann og fjöldi nemenda böðuðu sig án sundfata, segir hann það atvik snúast um nekt en ekki kynferðislega áreitni.
Jón Baldvin segist vera með bók í smíðum um þessa sögu alla og auglýsti eftir útgefanda í þættinum.
Umræða um meint kynferðisbrot Jóns Baldvins hófst árið 2012 er í ljós kom að hann hafði skrifað ungri frænku sinni vafasöm bréf. Rétt upp úr áramótum stigu síðan fram fjórar konur og sökuðu Jón Baldvin um kynferðislega áreitni gegn sér er þær voru barnungar. Í kjölfarið sakaði dóttir hans, Aldís Schram, föður sinn um sifjaspell og kynferðisbrot. Jón Baldvin hafnaði þessum ásökunum fyrir skömmu í yfirlýsingu sem hann birti.
Sjá einnig: