Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Þar segir að þessar upplýsingar komi fram í svari Guðmundar Þórs Guðmundssonar, skjalastjóra Biskupsstofu, við fyrirspurn blaðsins.
Í lögum um embættiskostnað og aukaverk presta frá 1936 er kveðið á um að prestar og prófastar skuli frá greiddan rekstarkostnað embætta sinna samkvæmt reglum sem kirkjuþing setur en þær reglur voru setta 1999. Síðan hefur upphæðum hennar verið breytt nokkrum sinnum.
Samkvæmt þessum reglum er skrifstofukostnaður prestsembætanna á bilinu 252-294 þúsund á ári en upphæð þeirra byggist á fjölda íbúa í hverri sókn. Þá fá prestar greiddar 154 þúsund krónur í síma-, póst- og fatakostnað. Þá eiga þeir rétt að fá greiddan árlegan aksturs- og ferðakostnað. Upphæðin ræðst af landfræðilegri staðsetningu og víðfemi hverrar sóknar. Þessar greiðslur geta verið allt frá 250 þúsund krónum upp í 850 þúsund krónur.
Prestum er síðan heimilt að innheimta gjald fyrir aukverk á borð við skírnir, útfarir, fermingar og hjónavígslur og er gjaldskrá í gildi fyrir þessi aukaverk. Auk þess geta prestar innheimt ferðakostnað í tengslum við skírn eða hjónavígslu og miðast hann við akstursgjald ríkisstarfsmanna en það er nú 110 krónur fyrir hvern kílómetra.