Róbert Smári Gunnarsson, sonur Gunnars Braga Sveinssonar, þingmanns Miðflokksins, segir það rangt að faðir sinn hafi verið drukkinn á söngleiknum Ellý á dögunum. Hann segir enn fremur að hann hafi ekki kallað fram í á sýningunni. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu.
Í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag var fullyrt að Gunnar Bragi hafi verið sýnilega fullur á fyrrnefndri sýningu. Það hafði Bylgjan eftir nokkrum viðmælendum. DV vitnaði í frétt Bylgjunnar, sem Róbert Smári segir ranga. Gunnar Bragi sagði í viðtali á Hringbraut á dögunum að frá því að Klaustursmálið kom upp hafi hann ekki snert áfengi.
Sjá einnig: Gunnar Bragi sagður drukkinn á Ellý – Fullyrt að hann hafi stundað frammíköll
„Nú er mælirinn fullur. Hvenær er komið nóg? Ég var á þessari sýningu með pabba og Sunnu þann 18. janúar. Pabbi bragðaði ekki áfengi fyrir sýningu, né á sýningu og ekki eftir hana. Sýningin var góð, við skemmtun okkur vel, hann greip ekki fram í og var bláedrú, allir voru til fyrirmyndar. Og öll vorum við sammála að um einhverja flottustu sýningu sem við höfum séð væri að ræða,“ segir Róbert Smári.
Hann segist vera í áfalli og með tárin í augunum. „Hversu lágt er hætt að leggjast? Hvenær er botninum náð? Hvað fær ,,blaðamann” til þess að halda þessu fram og búa svona til? Hvað ætla fjölmiðlar að leggja mikið á fjölskyldur stjórnmálamanna?! Skrifa þetta með tárin í augunum, sár og reiður, að svona skuli nokkur skrifa án vísunar til sannleikans og að leggja þetta á okkur, okkur sem vitum að þetta er haugalygi. Andskotans endemis vitleysa,“ segir Róbert Smári.