Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Þar segir að mál eftirlitsmannsins hafi verið litið mjög alvarlegum augum. Haft er eftir Eyþóri Björnssyni, Fiskistofustjóra, að við skoðun hafi reynst vera um feilspor að ræða og hafi málinu verið lokið með viðeigandi hætti. Hann sagðist ekki geta tjáð sig um viðkvæm starfsmannamál að öðru leyti.
Í siðareglum Fiskistofu kemur fram að starfsmenn megi ekki þiggja gjafir frá þeim sem þeir eiga að hafa eftirlit með. Fréttablaðið segist hafa heimildir fyrir að yfirmenn eftirlitsmannsins hafi fengið tilkynningu um að hann hafi þegið nokkur kíló af fiski í fiskvinnslu í Grindavík þegar hann var þar við eftirlit. Eftirlitsmaðurinn sagðist hafa keypt fiskinn og hafi greitt fyrir hann með bankamillifærslu.
Fréttablaðið segir að eftirlitsmaðurinn hafi verið áminntur og sé kominn aftur til starfa.