Þetta kemur fram í viðtali við Bryndísi í Viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag. Þar er haft eftir Bryndísi að henni hafi verið hótað og reynt hafi verið að múta henni. Hún segir að sönnunarfærsla í málum sem þessum sé erfið enda séu slíkar hótanir yfirleitt ekki settar fram í vitna viðurvist eða skriflegar.
„En þetta er auðvitað bara svona og hluti af þessu. En stofnuninni sem slíkri hefur verið hótað, og okkur hefur verið hótað pólitískum afskiptum í einstökum málum. Ég er ekki að segja að það hafi átt sér stað. En því hefur verið hótað.“
Segir Bryndís sem nefnir eitt dæmi um hvernig reynt var að múta henni:
„Það eru reyndar svolítið mörg ár síðan það var en þá var það þannig að mér var boðið að drekka frítt á einum bar niðri í bæ í eitt ár gegn því að mál yrði fellt niður. Einhverjir hefðu kannski freistast til þess. Þetta er náttúrlega bara hluti af þessu starfi. Það er auðvitað mitt starf og okkar hérna að láta þetta ekkert á okkur fá. Þetta hefur engin áhrif á það hvernig við tökum á málum og hvort við tökum á málum eða ekki. Ég fullyrði það og stend og fell með því. Það eru engin svona afskipti sem hafa áhrif á það hvernig við tökum á málum.“