Fréttablaðið skýrir frá þessu. Frá því að reglulegar hvalatalningar hófust 1987 hefur orðið mikil breyting á fjölda hvala við landið. Langreyði hefur fjölgað í rúmlega 30.000 dýr en voru 10.000-15.000 þegar talningar hófust. Hrefnu hefur fækkað úr um 40.000 dýrum um aldamótin í 10.000-15.000 dýr.
Í umsögn Hafró er vitnað í vísindagrein frá 1997. Haft er eftir Gísla Arnóri Víkingssyni, sjávarlíffræðingi hjá Hafró, að æti hvalanna sé ekki afli sem er tekinn frá mönnum heldur heildarát hvala við Ísland á einu ári. Hann sagði að tólf hvalategundir séu hér við landa og lítið sé vitað um hvað þær éta en út frá erlendum rannsóknum sé hægt að áætla að það séu rúmlega tvær milljónir tonna fiska en restin sé krabbadýr, áta og smokkfiskur og þess háttar.