Engilbert Arnar Friðþjófsson, oft kallaður Costco-kóngur Íslands og stjórnandi Facebook-hópsins Costco – Gleði, segist ætla að draga sig í hlé innan hópsins. Hann skrifar langt kveðjubréf þar sem hann kveðst ósáttur með eitt og annað sem tengist fyrirtækinu. Hann ítrekar þó að honum þyki enn vænt um verslunarrisann. Costco nýtur gríðarlegra vinsælda á Íslandi og á Facebook er að finna tvo íslenska hópa tengda versluninni. Eru meðlimir tugir þúsunda sem hafa verið þekktir fyrir að verja Costco líkt og trúaðir kirkjuna sína þegar verslunin hefur verið gagnrýnd, og rataði eftirminnilega í áramótaskaupið fyrir ári síðan. Engilbert hefur verið sérstaklega jákvæður í garð Costco og því kemur þessi gagnrýni úr nokkuð óvæntri hátt.
„Þetta var erfið ákvörðun en niðurstaðan varð þessi. Þær verða því miður ekki fleiri myndirnar frá mér úr COSTCO en þakklætið mitt fer til ykkar og takk fyrir að gleðja aðra. Þakka ykkur fyrir alla skemmtilegu póstana, allan hláturinn, skemmtilegu athugasemdirnar (‘commentin’), hjálpa öðrum. og í raun fyrir að gera þetta að svona skemmtilegri grúppu. COSTCO-Gleði mun lifa áfram þökk sé ykkur það er ég alveg sannfærður um,“ segir Engilbert.
Hann segist aldrei hafa fengið nokkuð greitt frá Costco, hann hafi einungis þótt það gefandi að hjálpa öðrum. Engilbert segist ætla að versla áfram hjá búðinni en viðrar þó óánægju sína. „COSTCO hefur verið að senda lista út með vörum sem að fólk hefur verið að biðja um og lítið sem ekkert kemur og þetta gerist líka allt svo hægt og nammideildin hjá þeim er því miður frekar sorgleg. Hvar eru svo öll flottu leikföngin? Steve Pappas Framkvæmdastjóri COSTCO í Bretlandi sagði eitt sinn í viðtali að loksins gætu Íslendingar fengið sér LEGO á viðráðanlegu verði. Hvar er allt þetta LEGO?,“ segir Engilbert.
Hann segir að verslunin þurfi að bæta ýmislegt. „En COSTCO má endilega fara hlusta betur á viðskiptavini sína og fara koma með VINSÆLAR AMERÍSKAR VÖRUR til landsins og vinna í því að gera COSTCO enn skemmtilegri,“ segir Engilbert.
Hann segir Costco þó gera margt gott: „Klósettpappírinn sem slegið hefur rækilega í gegn! – Apótekið sem er mjög vinsælt. Þeirra vinsæla bakarí – kökurnar þeirra og í hverri viku koma þeir með nýjar vörur. Eru með fjölbreytt úrval og alltaf eitthvað nýtt að birtast eins og núna síðast lúxusvara. Kavíar lítil dolla á einhvern 7999 krónur! (lúxus á ferðinni þar) og auðvitað var fólk að kaupa það (verður að prófa smakka) .. og RISARÚM sem var á einhvern 99 þúsund kall! og svo má ekki gleyma öllum kynningunum þeirra!“