Atlaga Orban gegn samtökunum hófst af fullum þunga á síðari hluta ársins 2014. Þá sagði Orban í ræðu að hann hefði í hyggju að stofna „ófrjálslynt“ ríki í Ungverjalandi þar sem lýðræði væri af skornum skammti. Þetta hafði meðal annars í för með sér að hans sögn að tekið yrði hart á aðgerðasinnum en ríkisstjórn Orban flokkar Open Society Foundations sem samtök aðgerðasinna. Í fyrstu atlögunni var skattinum beitt gegn samtökunum og lögum og reglum breytt til að hamla starfsemi samtakanna. Til dæmis voru settar reglur 2017 sem kveða á um að samtök sem fá meira en 23.000 evrur í styrk frá útlenskum styrktaraðilum verða að lýsa því yfir að þau séu „fjármögnuð erlendis frá“. Ríkisstjórn Orban hefur einnig komið mörgum lögum í gegnum þingið sem kveða á um að ólöglegt sé að hjálpa ólöglegum innflytjendum að óska eftir hæli í landinu. Auk þess mega samtök, hvaða nafni sem þau nefnast, ekki blanda sér í hælisumsóknir. Einnig voru samþykkt lög, sem heita opinberlega Stop Soros, sem kveða á um fangelsisrefsingu yfir þeim sem hjálpa ólöglegum innflytjendum að dvelja í Ungverjalandi. Refsiákvæðið nær bæði yfir einstaklinga og samtök. Ríkisstjórnin hóf einnig beinskeytta baráttu og auglýsinga- og áróðursherferð gegn Soros.
Miðað við þetta allt kann það að hljóma undarlega að Viktor Orban fékk sjálfur eitt sinn beinan fjárstyrk frá Soros eða 10.000 dollara til að kosta nám hans í stjórnmálafræði við Oxford-háskóla í Englandi. Á síðari árum hefur Orban hins vegar þróað með sér það sem sumir vestrænir fjölmiðlar kalla þráhyggju í garð Soros. Orban segir að Soros sé að reyna að ná völdum í Ungverjalandi, að hann vilji ræna kjörna fulltrúa þeim völdum og stöðum sem þeir voru kjörnir til að gegna. Í ræðu 2017 sagði Orban að Soros vilji fækka kristnu fólki í Ungverjalandi með því að flytja múslíma til landsins.
Í herferð ríkisstjórnarinnar gegn Soros var því haldið fram að Soros hefði í hyggju að flytja milljónir innflytjenda frá Afríku til Ungverjalands. Þessu var haldið fram í auglýsingum í dagblöðum, hliðhollum ríkisstjórninni, sjónvarpi og á stórum auglýsingaskiltum víða um land. Á sumum þeirra var sýnd mynd af brosandi Soros og undir var texti á borð við: „Látum ekki Georg Soros hlæja best að lokum.“
Ungverskir gyðingar hafa gagnrýnt auglýsingarnar og segja að í þeim megi greina gyðingahatur.
Allt hefur þetta borið árangur og að lokum hrökkluðust starfsmenn Open Society Foundations til Berlínar. Áður hugsaði starfsfólk samtakanna sig vel um áður en það sagði hvar það starfaði, almenningsálitið var orðið því svo andsnúið. Ekki var um beinar árásir á starfsfólkið að ræða en það fann vel að það var ekki velkomið víða, jafnvel gamlir vinir sneru skyndilega við því baki. Skyndilega voru starfsmenn Open Society Foundations orðnir óvinir ríkisins númer eitt.
Starfsmönnum samtakanna var til dæmis mjög brugðið yfir ljósmynd sem einn þingmaður stjórnarflokks Orban birti á Facebook. Á henni sést dautt svín, nýlega slátruðu, og búið er að skrifa „O volt a Soros“ á húð þess. Þetta er ákveðinn orðaleikur sem getur þýtt: „Hann var næstur í röðinni“ eða „Þetta var Soros“. Undir myndina skrifaði þingmaðurinn: „Einu svíninu færra. Verði þér að góðu!“ Þingmaðurinn hefur ekki viljað játa að myndin hafi tengingu við Soros sem er gyðingur.
En það er ekki aðeins Open Society Foundations sem eru skotspónn Orban og stjórnar hans því Central European University, háskóli sem Soros stofnaði og hefur stutt fjárhagslega, hefur einnig neyðst til að flytja starfsemi sína frá Ungverjalandi. Háskólinn neyddist til að flytja vegna laga sem var sérstaklega beint gegn honum til að þvinga hann til að flytja úr landi. Háskólinn hefur því flutt megnið af starfsemi sinni til Vínarborgar í Austurríki.