Tryggingamiðstöðin hf., tryggingafélag hvalaskoðunarfyrirtækisins Eldingar hf., var í byrjun árs sýknað af bótakröfu Marínar Möndu Magnúsdóttur. Marín Manda slasaðist um borð í Viðeyjarferju fyrirtækisins, en hún var farþegi í ferjunni vegna skemmtiferðar fjölmiðlafyrirtækisins 365. Hafði Marín Manda farið fram á að fyrirtækið myndi greiða henni rúmlega 5 milljónir króna, auk dráttarvaxta, í miskabætur. Ekki liggur fyrir hvort hún hyggist áfrýja dómnum til Landsréttar.
Dómurinn féll þann 2. janúar í Héraðsdómi Reykjavíkur en umrætt slys varð þegar slinkur kom skyndilega á ferjuna rétt áður en hún lagðist að bryggju í Reykjavíkurhöfn. Við það missti Marín Manda fótanna og féll fram af efra þilfari við stigaop og niður á neðra þilfarið. Fram kemur að fallhæðin hafi reynst ríflega tveir metrar.
Talsverð ölvun var á meðal farþega, en Marín Manda kvaðst ekki hafa neytt mikils áfengis sjálf. Taldi hún að slinkinn mætti rekja til þess að skipstjóri ferjunnar hefði slegið skyndilega af með þeim afleiðingum að hún féll milli þilfaranna. Marín Manda varð fyrir nokkrum áverkum við fallið og reyndist meðal annars rifbeinsbrotin. Var það mat fagaðila að um 5% örorku væri að ræða vegna áverkanna.
Málsvörn forsvarsmanna hvalaskoðunarfyrirtækisins var sú að slysið væri ekki að rekja til slinksins. Bentu þeir á að aðrir farþegar hefðu ekki slasast við hann. Þá hefði Marín Manda ítrekað hunsað fyrirmæli áhafnarinnar um að fara niður stiga milli þilfaranna með því að snúa fram, en ekki aftur.
Héraðsdómur taldi ósannað hvað olli því að umræddur hnykkur hafi komið á ferjuna. Taldi dómurinn hafa þyrfti í huga að konan hefði verið stödd um borð í ferju sem var á siglingu og um það bil að leggjast að bryggju. Hreyfingu á ferjunni við þær aðstæður yrði að telja eðlilega og því yrði ekki ráðið að slinkurinn hafi komið til vegna gáleysis skipstjóra við stjórn ferjunnar.
Var tryggingafélagið því sýknað af kröfunni, en rétt þótti að málskostnaður milli aðila félli niður en hér má lesa dóminn í heild sinni.