Securitas hefur fundið hlerunarbúnað og faldar myndavélar í fundarherbergjum íslenskra fyrirtækja, bæði litlum og stórum, það getur verið allt frá litlum hljóðnemum upp í hátæknilegan búnað sem afritar tölvur um leið og það er tekið upp hljóð. Theodór Carl Steinþórsson, deildarstjóri vöruþróunar hjá Securitas, sagði í þættinum Bítið á Bylgjunni í morgun að Securitas noti búnað til að fara yfir herbergi „eins og James Bond“. Það séu dæmi um að faldar myndavélar hafi fundist á hótelherbergjum og hann sjálfur athugi alltaf hvort það sé verið að hlera það þegar hann gistir á hótelum.
„Við höfum fundið myndavélar og míkrófóna þar sem er ásetningur,“ segir Theodór Carl. Tilgangurinn með hlerunum getur verið margskonar, þetta geta verið iðnaðarnjósnir, tilraunir til fjárkúgunar eða þetta geta verið starfsmenn fyrirtækisins sem vilja vita hvað stjórnendur eru að segja. Rifjar hann upp dæmi af bandarísku fréttakonunni Erin Andrews sem fór í sturtu á hótelherbergi og upptaka af því rataði inn á klámsíður. „Þetta er að finnast og á Íslandi líka.“
Theodór segir að búnaðurinn til að finna hlerunarbúnað sé dýr en Securitas eigi slíkan búnað. „Við getum þá sweepað herbergi eins og James Bond. Þá finnum við hljóðbylgjur, við finnum myndavélarnar, jafnvel þegar þær eru grafnar inn í veggina, falska loftinu eða inni í teppunum eða inni í blómapottunum. Við erum að finna þetta á þessum stöðum.“
Oftast er um að ræða lítinn hljóðnema tengt við lítið tæki með batteríi, einnig séu til dæmi um hljóðnema inni í tölvum með búnaði sem tekur einnig afrit af gögnum í tölvunni. Hann segir að það þurfi ekki neina lágmarksþekkingu: „Aðeins ásetninginn, annað er hægt að Googla.“
Theodór segir að þegar hann fer á hótelherbergi þá byrji hann alltaf á að líta í kringum sig og athuga hvort það sé eitthvað óeðlilegt í loftinu, bak við myndir, þá sérstaklega inni á baðherberginu. „Þetta er að finnast.“ Það séu dæmi um slíkt á Íslandi. „Það var hótelherbergi hérna á Íslandi þar sem var búið að setja myndavélar út um allt, klósettið líka.“