fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Verktaki sprautaði málningu yfir bíla og hús í Reykjanesbæ: Tjónið hleypur á milljónum

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 29. september 2018 12:00

Klampenborg. Málningu sprautað á þak hússins.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Margir íbúar Reykjanesbæjar eru reiðir eftir að starfsmaður verktaka við þakmálun sprautaði málningu yfir eignir þeirra. Atvikið átti sér stað þann 13. september en þá var norðanátt upp á allt að 11 metra á sekúndu. Málningin dreifðist yfir stórt svæði og lenti meðal annars á tugum bíla, tjaldvagna og húsa. Umfang tjónsins er óljóst en að öllum líkindum nemur það mörgum milljónum. Verktakinn var ótryggður og íhuga nú margir hópmálsókn vegna málsins.

Buðust til að þrífa bíl með terpentínu

Júlíus Högnason er einn þeirra íbúa í Reykjanesbæ sem nú íhuga hópmálsókn vegna skemmda sem verktaki að störfum við Klampenborg-húsið olli á bílum og öðrum eignum. Klampenborg, sem stendur við Túngötu númer 13 í norðurhluta bæjarins, er sögufrægt tíu íbúða hús byggt á fjórða áratug síðustu aldar. Þótti það þá hið mesta glæsihýsi. Júlíus segir við DV:

„Hann var að sprauta olíumálningu í norðan ellefu og við urðum fyrir stórtjóni. Síðan kemur á daginn að hann er ótryggður. Það er óskiljanlegt að menn geti verið ótryggðir í atvinnurekstri. Það kostar mig 200 þúsund að laga minn bíl. Það eru málningardoppur á bílnum og eins og sandpappír að koma við hann. Þetta fór yfir stórt svæði, nokkur bílastæði og sum langt í burtu frá húsinu.“

Júlíus segir að fólk virðist vera varnarlaust þegar svona mál koma upp.

„Við sem lentum í þessu erum að hugsa málið og athuga hvort við getum farið í hópmálsókn. En það er dýrt og getur tekið mörg ár. Ef við leitum til eigin tryggingafélaga þurfum við alltaf að greiða sjálfsábyrgðina sem er í mörgum tilvikum há.“

Hefurðu haft samband við verktakann?

„Já, ég hafði samband við hann kvöldið sem þetta gerðist. Það komu tveir útlendingar sem buðust til að þrífa bílinn minn með White Spirit-terpentínu en ég afþakkaði það nú bara.“

Bíll sem varð fyrir tjóni
Hvítar doppur og hrjúf áferð.

Brjálæði að sprauta við þessar aðstæður

Einar Atlason á einn þeirra bíla sem urðu fyrir skemmdum. Í samtali við DV segir hann:

„Mér finnst stórundarlegt að það sé hægt að standa í svona rekstri án þess að vera tryggður. Ég á eftir að fara með minn bíl í mat og veit að mat á sambærilegum bíl var í kringum 700 eða 800 þúsund krónur. Á bílnum er svart plast og ekki hægt að fara með hvaða efni sem er til að ná málningu af því. Það þarf því að skipta um alla slíka lista, af rúðum og fleiru. Svo fór málningin yfir stórt svæði og lenti á húsum líka.“

Einar segist halda að tjónið gæti hlaupið á tugum milljóna króna.

„Það var til dæmis Porche-eigandi sem lenti í þessu. Þetta er stórtjón fyrir hann. Ég er ekki búinn að ákveða hvað ég geri en ef það verður farið út í málaferli verður það sennilega hópmálsókn.“

DV hafði samband við málningarsérfræðing hjá Slippfélaginu og sagði hann það „brjálæði“ að sprauta málningu á þak við þessar aðstæður. Til eru ýmsar gerðir af þakmálningu og olíumálning sé sú lakasta. Hún er talin gamaldags enda þorna agnirnar ekki í loftinu. Töluverða viðgerð þarf til að ná slíkri málningu af lakki bíla.

Einkamál samkvæmt lögreglu

Víkurfréttir sögðu fyrst frá málinu þann 20. september en nú hefur það undið upp á sig. Við lögregluskýrslu sem gerð var eftir að málið kom upp var sagt að 41 bifreið hefði fengið málningu á sig. Flestar við Aðalgötu en einnig Túngötu, Vallargötu og Íshússtíg í norðurhluta bæjarins. Í samtali við DV segir varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum að bílarnir séu mun fleiri.

„Ég er ekki með nákvæma tölu á því en gæti trúað að þeir séu 70 eða jafnvel 80.“

Hvaða meðferð fær þetta mál hjá ykkur?

„Þetta er augljóst slys en ekki skemmdarverk. Það hefur ekki verið meiningin að láta málninguna fjúka yfir allt. Þetta er því einkamál á milli þeirra sem ollu og urðu fyrir þessu.“

Samkvæmt upplýsingum frá atvinnuvegaráðuneytinu og Samtökum iðnaðarins þá snýr málið að leyfisveitingum. Þórir Hrafnsson, upplýsingafulltrúi ráðuneytisins, segir í samtali við DV:

„Þeir verktakar sem eru í Málarameistarafélaginu, sem er aðili að Samtökum iðnaðarins, eru með ábyrgðarsjóð sem verkkaupar geta sótt í ef meistari hefur klúðrað einhverju. Sem mér skilst að sé ekki í þessu tilviki.“

Það stendur heima. Við athugun DV kom í ljós að verktakinn sem um ræðir er ekki á skrá Málarameistarafélagsins.

„Þarna er einhver að bjóða þjónustu sína sem hefur ekki leyfi til þess samkvæmt áttundu grein iðnaðarlaga. En hann er ekki sjálfkrafa með tryggingu þegar hann hefur störf. Það er val verkkaupa hvern þeir fá til verksins en ef þeir fá einhvern sem hefur ekki leyfi þá hraðfellur verndin.“

Eigandi klökknaði

Ekkert húsfélag er í Túngötu 13. Þegar DV hafði samband við eiganda einnar íbúðar í húsinu sagðist hann hafa keypt íbúðina af verktakanum sjálfum. Við nánari athugun kom í ljós að allar íbúðirnar hefðu verið í eigu verktakans og í kaupsamningum stóð „Seljandi mun gera við múrskemmdir og steina húsið að utan, yfirfara glugga og mála ásamt því að yfirfara þak hússins og mála og skipta um þakrennur.“

Eigandinn klökknaði þegar DV spurði hvort hann vissi hver bæri ábyrgðina í málinu. „Veistu, ég bara veit það ekki.“

Þegar DV hafði samband við verktakann sjálfan sagðist hann vera í fríi erlendis og skellti síðan á.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Össur tætir Pírata í sig: „Málefnalega skipta þau ekki lengur máli“

Össur tætir Pírata í sig: „Málefnalega skipta þau ekki lengur máli“
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Mannskæður hernaður Rússa í Úkraínu – „Við nálgumst tölur eins og voru í síðari heimsstyrjöldinni“

Mannskæður hernaður Rússa í Úkraínu – „Við nálgumst tölur eins og voru í síðari heimsstyrjöldinni“
Fréttir
Í gær

Ákærður fyrir kynferðisbrot gegn systur sinni á árunum 2003 til 2007

Ákærður fyrir kynferðisbrot gegn systur sinni á árunum 2003 til 2007
Fréttir
Í gær

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán
Fréttir
Í gær

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“
Fréttir
Í gær

Gosið fór yfir Grindavíkurveg í nótt – Fer 300 metra á klukkustund

Gosið fór yfir Grindavíkurveg í nótt – Fer 300 metra á klukkustund