Bandaríska listakonan Meagan Boyd hefur sakað Orra Pál Dýrason, trommara Sigur Rósar um að hafa brotið á sér kynferðislega árið 2013. Boyd birti ásakanirnar í færslu Instagram-síðu sinni fyrir fjórum dögum en þar er notandanafn hennar Yinshadowz. Tónlistartímaritið Paste fjallaði um ásakanirnar í vikunni.
Þá má finna fjölmargar færslur á Twitter um ásakanir Boyd sem og ítarlegar umræður á Reddit. Rétt er að taka fram að í færslum listakonunnar kemur fram að Orri Páll vísi ásökununum alfarið á bug.
Þegar hið meinta brot átti sér stað árið 2013 voru liðsmenn Sigur Rósar staddir í Los Angeles við upptökur á plötunni Kveik. Kveðst Boyd hafa hitt íslenska tónlistarmanninn á næturklúbbi í borginni. Þau hafi farið upp á hótelherbergi hans, kysst en síðan hafi hún sofnað í rúmi hans. Heldur Boyd því fram að þegar hún vaknaði hafi hún fundið að einhver var inni í sér.
Erfitt er að átta sig á atburðarásinni að öllu leyti í frásögn Boyd en hún fullyrðir að henni hafi verið nauðgað tvisvar sinnum þessa nótt. „Ég velti því fyrir mér af hverju ég forðaði mér ekki eftir fyrsta skiptið en ég var drukkin, dauðþreytt og í áfalli,“ segir hún í færslunni.
Hún segist ekki hafa tilkynnt brotið til lögreglunnar. „Ég tilkynnti það ekki. Ég hef ekki talað um sársauka minn opinberlega. Ég er búin að burðast með þetta í sex ár og fyrir því eru margar ástæður. Ég var viss um að enginn myndi trúa mér. Mér leið eins og það hafi verið óábyrgt af mér að treysta honum því hann var í hljómsveit sem ég elskaði og ég dáði hann sem listamann,“ segir Boyd einnig í færslunni.
Hún kveðst ekki hafa verið tilbúin til að stíga fram þegar #metoo-byltingin stóð sem hæst. „Bara að tala um þetta mál veldur mér miklum kvíða og ég var við það að eignast mitt fyrsta barn,“ segir Boyd. Þá segist hún ekki geta hugsað sér að heyra eitt einasta lag með Sigur Rós aftur á ævinni. „Þessi lög sem mér fannst áður svo róandi, falleg og dáleiðandi láta mig núna fá óbragð í munninn.“
Í annarri færslu þremur dögum síðar fullyrðir Boyd að íslenski tónlistarmaðurinn hafi neitað ásökununum og reynt að þagga niður í henni. Í viðleitni sinni til þess að sanna þær fullyrðingar birti hún myndir af tölvupóstsamskiptum þeirra á milli. Einhver notandi Instagram hafi tilkynnt þær birtingar sem brot á reglum samfélagsmiðilsins og því hafi þær verið fjarlægðar.
DV hefur ekki náð tali af Orra Pál vegna málsins