Fyrirsögnin í umfjöllun á vef DR um þáttinn var „Hvalakóngurinn sem skýtur og drepur íslenskar langreyðar í útrýmingarhættu.“ Í þeirri umfjöllun sem og í þættinum kemur fram að Kristján sé einn af síðustu hvalveiðimönnum heimsins sem drepi friðaðar langreyðar og selji kjötið af þeim þrátt fyrir alþjóðlegt bann og almenna fordæmingu.
Haft er eftir Kristjáni að hvalveiðarnar snúist um að nýta auðlindirnar, ef hvalastofninn sé í góðu standi þá sé ekkert að því að nýta hann. Hvalavertíðinni lauk í gær þegar síðustu hvalirnir komu að landi í Hvalfirði en alls voru 146 langreyðar veiddar á tímabilinu, þar af voru tvær blendingar af langreyði og steypireyði.
Kristján vandaði dýraverndunarsinnum ekki kveðjurnar í þættinum og sagði samtök þeirra vera forherta hópa sem myndu drepa fólk ef til þess kæmi. Þetta væru hryðjuverkamenn og ef þeir taki lögin í eigin hendur þá verði vandræði.
Einnig var rætt við Karen Kermode og Josh Riley, meðlimi í Sea Shepard UK en þau voru í Hvalfirði til að fylgjast með starfseminni í Hvalstöðinni.
„Þetta verður að stoppa núna. Það er ómanneskjulegt að drepa þessa hvali.“
Sagði Kermode. Hún og félagar hennar í Sea Shepard berjast nú gegn því að Hvalur hf. fái leyfi til hvalveiða á nýjan leik en vertíðin, sem lauk í gær, var sú síðasta á núverandi leyfi.
„Fólk eins og hann kemst upp með allt. Honum er skítsama.“
Nærvera Sea Shepard félaganna truflar Kristján hins vegar ekki.
„Mér gæti ekki staðið meira á sama um hvort þau eru hérna eða ekki.“