Fjölmiðlar hafa áður fjallað um Jakob S. Jónsson en árið 2010 var hann sakaður um fjárdrátt úr samtökum Heimilis og skóla í Svíþjóð, þar sem hann gegndi formennsku. Það var fréttaskýringarþátturinn Uppdrag og gransking sem sýndur var í sænska ríkissjónvarpinu sem greindi frá meintum brotum Jakobs. Í þættinum var fullyrt að Jakob hefði misnotað aðstöðu sína er hann starfaði fyrir samtökin og greitt fyrir einkaneyslu með greiðslukorti samtakanna.
Visir.is fjallaði ítarlega um málið á sínum tíma en þar vísaði Jakob öllum ásökunum á bug og sagði málið byggt á misskilningi. „Það sem ég er sakaður um er að hafa étið mat og drukkið áfengi fyrir 40 þúsund sænskar krónur og það hef ég heldur ekki gert á kostnað samtakanna. Ekki samkvæmt þeirri lýsingu,“ sagði Jakob í samtali við Vísi á sínum tíma.
Málið vakti töluverða athygli en á þeim kvittunum sem stjórnendur Uppdrag og gransking höfðu undir höndum mátti meðal annars finna greiðslur fyrir hreindýrafile, nautasteik, skötusel, vín og líkjör. Reikningarnir sýndu fram á greiðslur að andvirði 40 þúsund sænskra króna.
Skömmu eftir að Jakob tilkynnti framboð sitt lýsti Ólafur Arnarson, fyrrverandi formaður Neytendasamtakanna. yfir afgerandi stuðningi við formannsframboð Jakobs. Í viðtali við Ólaf sem birtist í Fréttablaðinu sama dag sagði hann Jakob vera rétta manninn til að bjarga samtökunum.
„Jakob er maður sem lætur að sér kveða og ég hef fulla trú á því að hann hafi alla burði til þess að rífa samtökin upp úr þessari lægð,“ sagði Ólafur meðal annars í umræddu viðtali.
Kosning til formanns fer fram á þingi samtakanna sem haldið verður í október. Enginn formaður hefur verið starfandi frá því að Ólafi Arnarsyni var sagt upp störfum hjá samtökunum. Uppsögnin kom til vegna óhóflegra útgjalda Ólafs.